Hólmbert Aron Friðjónsson verður áfram í herbúðum norska B-deildarliðsins Álasund eftir að tilboði frá Suður-Kóreu var hafnað í framherjann.
Tvö eða þrjú tilboð komu í framherjann en þetta staðfesti Ólafur Garðarsson í samtali við Fótbolta.net. Hann segir að „verulegar fjárhæðir hafa verið komnar í spilið.“
Ólafur, sem er umboðsmaður Hólmberts, sagði enn fremur í samtali við Fótbolta.net að hann reiknaði með því að hann yfirgefi félagið næsta sumar. Áhugi er til að mynda á honum frá Hollandi.
Hólmbert fór á kostum á síðustu leiktíð en hann lék stórt hlutverk í því að Álasund fór alla leið í umspilið um laust sæti í norsku úrvalsdeildinni. Þeir töpuðu því og leika því áfram í B-deildinni.
