Spænsk stjórnvöld ætla að veita um 400.000 Bretum sem búa á Spáni dvalarleyfi fari svo að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings í lok þessa mánaðar. Það boð væri háð því að bresk stjórnvöld byðu spænskum borgurum í Bretlandi sömu réttindi.
Ríkisstjórn Spánar kynnir viðlagaáætlun sína vegna útgöngu Breta úr ESB í dag. Hún hefur þegar ráðið á annað þúsund nýrra opinberra starfsmanna til að takast á við afleiðingar útgöngunnar, ekki síst við landamæra- og tollaeftirlit.
Spænska dagblaðið El País greindi frá áformum hennar um dvalarleyfi til breskra borgara búsettra á Spáni. Íbúum á Gíbraltar stendur það einnig til boða. Ríkisstjórnin áskilur sér hins vegar rétt til að beita neitunarvaldi gegn samkomulag á milli Breta og Evrópusambandsins um klettinn.
Hundruð þúsund Breta fá dvalarleyfi á Spáni ef Brexit fer í hart
Kjartan Kjartansson skrifar
