Innlent

Garðabær tekur á móti hinsegin flóttafólki

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Unnið er að því að finna húsnæði handa fólkinu.
Unnið er að því að finna húsnæði handa fólkinu. Fréttablaðið/Sigurjón
Bæjarráð Garðabæjar samþykkti á fundi í dag að taka á móti flóttafólki í bæinn á þessu ári. Félagsmálaráðuneytið hafði sent bænum erindi þar sem þess var farið á leit við bæjaryfirvöld að þetta yrði gert.

Í frétt á vef Garðabæjar kemur fram að um tíu einstaklinga sé að ræða. Þeir séu hinsegin flóttafólk frá Úganda, staðsett í flóttamannabúðum í Kenía. Samkynhneigð er ólögleg í Úganda og getur refsingin við henni verið allt að lífstíðarfangelsi.

Einstaklingarnir tíu eru í hópi 75 kvótaflóttafólks sem stjórnvöld samþykktu að taka við á þessu ári. 

Bæjarstjóra Garðabæjar, Gunnari Einarssyni, hafi verið falið að undirbúa mál flóttafólksins. Sá undirbúningur fólst meðal annars í því að útbúa samning milli Garðabæjar og félagsmálaráðuneytisins um þá þjónustu og aðstoð sem flóttafólkinu verði veitt.

Tímasetningar um komu flóttafólksins liggja ekki fyrir að svo stöddu en á vef bæjarins segir að stefnt sé að því að taka á móti fólkinu á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×