Lokaumferðin í Domino´s-deild karla í körfubolta fer fram í heild sinni á fimmtudagskvöldið en einn af leikjunum er viðureign Íslandsmeistara KR og Breiðabliks.
Leikurinn fer fram í DHL-höllinni á heimavelli Íslandsmeistara síðustu fimm ára og hefst klukkan 19.15 en Alvogen býður öllum frítt á leikinn.
Mikið er undir hjá KR en með sigri getur liðið náð fjórða sætinu í deildinni og þannig tryggt sér heimaleikjarétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Blikar eru aftur á móti fallnir.
KR þarf ekki bara að vinna heldur þarf vesturbæjarliðið einnig að treysta á að Keflavík vinni Tindastól í lokaumferðinni þannig að mikil spenna er fyrir þessari síðustu umferð í deildinni.
Fyrstu borgararnir verða komnir á grillið um 18.00 en leikurinn hefst svo eins og fyrr segir klukkan 19.15.

