Ráðherrar í ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, eru sagðir hafa hafnað breytingum sem Evrópusambandið var tilbúið að gera á útgöngusamningi um helgina. Viðræðurnar eru sagðar hafa siglt í strand þegar aðeins átján dagar eru þar til Bretar ætla að ganga úr sambandinu.
Reuters-fréttastofan segir að fulltrúar Bretlands og Evrópusambandsins hafi verið nálægt samkomulagi á laugardag og hefur eftir evrópskum embættismönnum. Sambandið hafi verið tilbúið að semja um ákvæði sem gerði bresku ríkisstjórninni kleift að segja sig einhliða frá svonefndri baktryggingu um landamæri á Írlandi.
Fylgjendur útgöngunnar í Íhaldsflokki May eru ósáttir við baktrygginguna en í henni felst að Norður-Írland yrði áfram hluti af tollabandalagi ESB eftir útgöngunni þangað til samið yrði um varanlegt fyrirkomulag sem kæmi í veg fyrir að setja þyrfti upp hefðbundin landamæri á milli Írlands og Norður-Írlands. Óttast þeir að fyrirkomulagið með festa Bretland inni í tollabandalaginu ef engin tímamörk verða sett á baktrygginguna.
Vonir um að þetta útspil ESB gæti leitt til breytinga á útgöngusamningnum sem breskir þingmenn höfnuðu með afgerandi meirihluta í janúar kulnuðu þó fljótt. Ráðherrar í ríkisstjórn May höfnuðu breytingunni og greindi May frá því í símtali við Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í gærkvöldi.
Breska þingið á að greiða atkvæði um útgöngusamninginn á morgun. Verði hann felldur öðru sinni kjósa þingmenn um hvort þeir vilja ganga úr sambandinu án samnings. Sé ekki meirihluti fyrir því verða þingmenn látnir greiða atkvæði um hvort fresta eigi útgöngunni.

