Innlent

Vandræðalega upphlaupið var réttmætt

Ari Brynjólfsson skrifar
Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar.
Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar. Vísir/stefán
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur komist að þeirri niðurstöðu að fundarboð í samgöngu- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar í ágúst í fyrra hafi verið gallað. Sjálfstæðismenn gengu af fundinum og sögðu hann ekki hafa verið boðaðan með löglegum fyrirvara. Þar að auki hafi fundargögn ekki fylgt fundarboðinu.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, fór fram á það í byrjun fundarins að hann yrði af boðaður en sú tillaga var felld af fulltrúum meirihlutans.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins yfirgáfu fundinn. Í bókun meirihlutans segir að bilun í tölvukerfi og innsláttarvilla á netföngum hafi orðið til þess að fundarboðið barst ekki tímanlega, engu að síður sé það ótvírætt álit lögfræðinga sviðsins að ágallarnir valdi ekki því að fundurinn teljist ólögmætur.

„Þetta er hugsanlega vanhugsaðasta og vandræðalegasta upphlaup sem ég hef orðið vitni að á mínum átta ára ferli í pólitík,“ sagði Kristín Soffía Jónsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, um þá ákvörðun Sjálfstæðismanna að yfirgefa fundinn.

Í bréfi ráðuneytisins til borgarstjóra í vikunni segir að ágallarnir séu til þess fallnir að valda óvissu um lögmæti fundarins.

Er því beint til borgarinnar að tryggja framvegis að uppfylla kröfur um boðun funda og rétt væri að lengja lágmarksfyrirvara á fundarboðum. Hefur ráðuneytið beðið um viðbrögð frá borginni vegna tilmælanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×