Svava Rós Guðmundsdóttir skoraði jöfnunarmark Kristianstad gegn Rosengård, 2-2, í sænsku bikarkeppninni í dag.
Mark Svövu tryggði Kristianstad efsta sætið í riðlinum og þar með sæti í undanúrslitunum. Kristianstad fékk sjö stig, líkt og Rosengård, en markatala liðsins var betri.
Svava, sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir íslenska landsliðið í síðustu viku, lék allan leikinn fyrir Kristianstad sem var 2-0 undir í hálfleik. Sif Atladóttir lék sömuleiðis allan leikinn fyrir Kristianstad en Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir kom inn á sem varamaður á 63. mínútu. Hún fór svo aftur af velli í uppbótartíma. Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad.
Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn fyrir Rosengård.
Anna Rakel Pétursdóttir var í byrjunarliði Linköping og lék allan leikinn þegar liðið tapaði 3-0 fyrir Kopparbergs/Göteborg. Linköping komst ekki í undanúrslit.
