Repúblikanar hafa heitið því í mörg ár að fella niður hin svokölluðu Obamacare lög ,sem kallast einnig Affordable Care Act (ACA) og byggja nýtt og betra heilbrigðiskerfi. Án árangurs þó. Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikanaflokksins, varði miklu púðri í að reyna að fá nýtt heilbrigðisfrumvarp í gegnum báðar deildir þingsins árið 2017. Repúblikanar stjórnuðu þá báðum deildum en þrátt fyrir það tókst þeim ekki að koma frumvarpinu í gegn.
Nú stjórna Demókratar fulltrúadeildinni og samkvæmt Politico skilja þingmenn Repúblikanaflokksins ekki af hverju Trump vill aftur í þennan tiltekna slag. Fáir þeirra hafa þó vilja segja eitthvað opinberlega.
Trump hefur heitið því að Repúblikanaflokkurinn verði flokkur heilbrigðismála og hreyfingar séu að eiga sér stað innan dómskerfisins og stjórnsýslunnar.
The Republican Party will become the Party of Great HealthCare! ObamaCare is a disaster, far too expensive and deductibility ridiculously high - virtually unusable! Moving forward in Courts and Legislatively!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) March 28, 2019
Sú ákvörðun kom þingmönnum Repúblikanaflokksins verulega á óvart og óttast þeir að ef lögin verði felld niður sitji þeir uppi með ábyrgðina gagnvart kjósendum og næsta ár er kosningaár.
McConnell sagði í viðtali í vikunni að Trump mætti taka forystuna í þessu máli og sagðist hlakka til að sjá að hvaða samkomulagi hann kæmist við Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar. Hann ætlaði frekar að beita sér gegn heilbrigðisfrumvarpi sem Demókratar opinberuðu í vikunni.
Því frumvarpi er ætlað að fylla upp í skörð á ACA og myndi það gera fjölmörgum heimilum kleift að njóta aðstoðar við að greiða heilbrigðistryggingar, samkvæmt AP fréttaveitunni.