Zainab flutti til Íslands með móður sinni og bróður í september á síðasta ári. Hún er afgönsk og fæddist í Íran. Zainab hefur aldrei búið í Afganistan.
Fjölskyldan flutti frá Íran til Grikklands þaðan sem þau komu til Íslands. Móðir hennar segir að fjölskyldan sé öruggari á Íslandi en annars staðar þar sem þau hafa búið. Fjölskyldufaðirinn er enn í Grikklandi. Zainab óskar þess að pabbi hennar bætist í hópinn og fjölskyldan fái að búa hér á landi.
Útlendingastofnun hefur ákveðið að taka málið ekki til efnislegrar meðferðar og hefur vísað fjölskyldunni úr landi. Kærunefnd útlendingamála hefur staðfest þá ákvörðun.
Brá að sjá 600 undirskriftir
Þegar Zainab er spurð hvernig hún kunni við sig í skólanum svarar hún að hún elski skólann. Hún hafi eignast marga vini, meðal annars tvær stelpur frá Afganistan sem eru líka í Hagaskóla.Skólasystkini Zainab hafa safnað undirskriftum henni til stuðnings. Hún segist vera alsæl með þessa hjálp frá skólafélögunum. Zainab segist ekki hafa trúað því að 600 manns myndu skrifa nafn sitt á listann henni og fjölskyldu hennar til stuðnings.
Lögmaður fjölskyldunnar hefur skilað inn kröfu til kærunefndar útlendingamála um endurupptöku málsins. Er þar vísað til þess að Zainab hafi myndað sterkt tengslanet í Hagaskóla. 600 undirskriftir skólafélaga hennar beri vott um það.
„Ef við fáum jákvætt svar þá getum við verið hér áfram og haldið áfram í skólanum,“ segir Zainab.
Amir bróðir Zainab er tveimur árum yngri en hún. Hann gengur í Grandaskóla og æfir knattspyrnu með KR.