Skoðun

Túristabrestur

Guðmundur Steingrímsson skrifar
Gullfoss verður áfram í Hvítá. Mér finnst mikilvægt að leggja á það nokkra áherslu þessi dægrin, til þess að róa sálartetrið á óvissutímum, að þó svo flugfélagið WOW hætti rekstri í núverandi mynd eða fari alveg á hausinn, þá þýðir það ekki að náttúruperlur Íslands hverfi í sömu andrá og þar með aðdráttarafl landsins og fegurð þess. Gullfoss verður áfram í Hvítá, Strokkur heldur áfram að frussast upp úr jörðinni í Haukadal, Bláa lónið missir ekki lit sinn, Þríhnúkagígur fellur ekki saman, Dyrhólaey hrynur ekki, Dettifoss verður áfram hrikalegur, Látrabjarg áfram ægilegt, Hekla ógnandi og norðurljósin töfrandi.

Ísland verður áfram einhver sá magnaðasti áfangastaður sem nokkur ferðamaður getur valið sér að ferðast til.

Mér finnst stundum eins og landinn hafi tekið uppgangi ferðaþjónustu á undanförnum árum sem óvæntum lukkupotti. Líkt og Ísland hafi á einhvern hátt dottið óvart í tísku – út af Björk eða Eyjafjallajökli eða út af einhverju sem einhver sagði – og í kjölfarið hafi streymt til landsins ferðamenn.

Þetta er að hluta til rétt. Þetta gerðist. Eldgos varð og allt sprakk. Ferðamenn hafa flykkst til landsins síðan, jafnvel í of miklum mæli. Vegna sjómannseðlis og veiðiþels held ég að við Íslendingar, ekki síst út af því að uppganginn bar að með þessu móti, höfum margir tilhneigingu til að líta á ferðamenn eins og makríl. Þeir eru fiskitegund sem allt í einu gerði vart við sig á Íslandsmiðum. Þeir eru afli. Þeir ganga í torfum. Og semsagt: Nú er að verða túristabrestur eins og loðnubrestur.

Og WOW er þá útgerðarfélag. Flugvélarnar eru togarar. Félagið hefur mokveitt á undanförnum árum, en nú eru horfur slæmar.

Þetta er ekki gott, hvíslar lopapeysuklæddur skipstjóri með sjálfum sér og sötrar gulan Braga.

Röng líking

Mér finnst mikilvægt að minna sig á, að þó svo þessi samanburður ferðafólks við fisk eigi sér sumpart stoð í raunveruleikanum – svona af sjónarhóli atvinnumála til skamms tíma – að þá er þessi líking líka á svo mikilvægan hátt röng og óheilbrigð. Veruleikinn er fremur þessi, sem varðar okkur mjög: Áhugi fólks, út um allan heim, á ótrúlegri náttúru er ekki eitthvað sem byrjaði í fyrra og hættir á næsta ári. Þörfin til þess að upplifa náttúruna, standa andspænis henni, njóta hennar og reyna sig í henni, er þörf sem mun bara vaxa meðal mannkyns, í takt við vöxtinn á öllu hinu: Vélmennunum, sjálfvirkninni, tölvunum og netinu. Í heimi sem þráir og mun þrá náttúru meira og meira, er Ísland komið á kortið sem einstakt náttúruævintýri. Þótt bakslag komi í hinn ótrúlega mikla uppgang um stundarsakir, dettur Ásbyrgi ekki úr tísku. Né Herðubreið. Né Askja.



Breyttir tímar

Það er auðvitað glatað að hressilegt og djarft félag eins og WOW hafi ekki getað nýtt sér þennan mikla áhuga sem hefur skapast á Íslandi til þess að byggja upp stöndugan rekstur. Ef það var ekki hægt á þessum fordæmalausu uppgangstímum, þá er það líklega aldrei hægt. Mér sýnist sagan hafa sagt okkur að Íslendingar geti yfirleitt bara rekið eitt flugfélag, og það með herkjum og ríkisinngripum. Vandræði WOW eru þunglyndisleg áminning um þann dapurlega veruleika.

Alveg burtséð frá hrakningum eins flugfélags munu útlendingar áfram unnvörpum vilja upplifa Ísland, þótt vöxturinn verði ekki 30% á ári, blessunarlega. Íslensk ferðaþjónusta mun þurfa að treysta á lögmál framboðs og eftirspurnar þegar kemur að flutningi ferðafólks til landsins. Það lögmál hefur virkað ágætlega á undanförnum árum.

Þegar ég var að alast upp flugu frá landinu tvö flugfélög, Icelandair og Arnarflug, og eini túristinn í Skagafirði sumarið 1983 hét David. Nú skipta túristarnir milljónum og flugfélögin tugum.



Skemmtilegt

Náttúran – það sem okkur ber að varðveita og sýna öðrum – er stærri en nokkurt eitt fyrirtæki. Það er þó skemmtilegt, og kannski var það hluti af langtímaplani Skúla, ef illa færi, að nafn sköpunarverks hans, sem nú berst í bökkum, mun áfram lifa í alþjóðlegum viðbrögðum þeirra milljóna ferðamanna sem berja munu undur Íslands augum í framtíðinni.

Gagnvart Gullfossi, Dettifossi, Jökulsárgljúfrum og Kirkjufelli mun fólk áfram hvísla með sjálfu sér í veðurbarinni lotningu, um aldir alda: WOW.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×