Skoðun

Atvinnulífið leiði umhverfisvernd

Hanna Katrín Friðriksson skrifar
Formúlan fyrir framtíðartrylli hefur verið óbreytt svo lengi sem elstu menn muna; Á einn eða annan hátt ganga menn svo fram af móður jörð að siðmenningin líður undir lok, lýðræðið og einstaklingsfrelsið er fótum troðið, fasisminn ræður ríkum. Einhverjir uppreisnarseggir eru þó ósigraðir og í lok myndarinnar er vonarglætu að finna.

Eitt af einkennum frjálslyndra samfélaga er athafnafrelsi, jafnt einstaklinga sem fyrirtækja. Hlutverk stjórnvalda er að skapa umgjörð þar sem frelsið og fjölbreytnin nýtur sín til hagsbóta fyrir samfélagið í heild sinni. Eitt af stærstu viðfangsefnunum þar er að skipa umgjörð sem gerir atvinnulífinu betur kleift að vera öflugur þátttakandi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Árekstrar milli atvinnulífs og umhverfisverndar eru ekki náttúrulögmál. Það er manngerður og heima­tilbúinn vandi sem er á okkar ábyrgð að leysa.

Stjórnvöld geta brugðist við með því að ýta undir græna hvata, tryggja að losun sé í samræmi við ströngustu kröfur og búa til umhverfi sem auðveldar fyrirtækjum að taka umhverfissjónarmið inn í framleiðslu og framboð á vöru og þjónustu. Besta leiðin til að draga úr mengun er að tryggja að þeir sem valda henni greiði kostnaðinn af henni.

Það er líka mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf taki höndum saman við að stuðla að almennri vitundarvakningu. Ný og krefjandi úrlausnarefni kalla á nýjar lausnir. Þær lausnir eru mun líklegri til að verða til í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs þar sem nýsköpun og vöruþróun eru vænlegri til árangurs en eingöngu boð og bönn.

Sjálfbærni, samkeppni og nýsköpun eru leiðarstef sem eiga að ríkja í öllum atvinnurekstri. Með fullri virðingu fyrir mikilvægi uppreisnarseggja, þá eigum við þannig mesta möguleika á því að standa vörð um náttúruna okkar og frjálslyndið og halda fasismanum úti.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×