Skoðun

Mennt er máttur

Óttar Guðmundsson skrifar
Fyrir einhverjum áratugum þótti nám vera mikil forréttindi. Börn fátækra foreldra áttu sáralitla möguleika á því að ganga hinn svokallaða menntaveg. Fræg er sagan af Stephani G. Stephanssyni skáldi norður í Skagafirði sem horfði hnugginn á skólapilta ríða suður til náms. Hallgrímur heitinn Pétursson yrkir um gildi menntunar í heilræðavísum sínum:

Oft er sá í orðum nýtur,

sem iðkar menntun kæra

en þursinn heimskur þegja hlýtur

sem þrjóskast við að læra.

Nú er öldin önnur. Menntun þykir sjálfsögð og langflestir stefna á margra ára framhaldsskólanám. Með þessari stefnu breyttist þó viðhorf og lífsgleði nemenda. Farið var að tala um skólaleiða og á allra síðustu tímum kulnun í námi. Með lengri skólagöngu jókst kvíði og andleg vanlíðan æskufólks.

Skólarnir hafa komið til móts við þennan leiða nemenda og leyfa öllum að hafa með sér síma og tölvu í kennslustund. Nemandinn þarf ekki lengur að einbeita sér að ártölum eða óreglulegum þýskum sögnum í tímum heldur getur brugðið sér á netið og fylgst með félögum sínum í ræktinni. Nú eða horft á nýjasta myndbandið með Hatara. Alls kyns tölvuleikir stytta hverja kennslustund og gera námið léttbærara. Kennarar og námsefni eru í stöðugri og vonlausri samkeppni við hinn alþjóðlega skemmtiiðnað á netinu. Skólanum tekst með þessari sífelldu afþreyingu að koma í veg fyrir almennan skólaleiða. Hallgrímur sálmaskáld kom einmitt til mín í draumi fyrir nokkru og sagði:

Snappsjatt þykir firna flott

flestir í jútjúb rýna.

Instagram þér gerir gott,

geym vel tölvu þína.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×