Erlent

For­sprakki valda­ránsins í Súdan fer frá

Atli Ísleifsson skrifar
Awad Ibn Auf stjórnaði leyniþjónustu hersins í átökunum í Darfúr á sínum tíma.
Awad Ibn Auf stjórnaði leyniþjónustu hersins í átökunum í Darfúr á sínum tíma. Getty
Yfirmaður súdanska herráðsins og sá sem fór fyrir því að koma forsetanum Omar al-Bashir frá völdum hefur nú sjálfur ákveðið að fara frá. Awad Ibn Auf, sem einnig er titlaður varnarmálaráðherra, tilkynnti um afsögn sína í sjónvarpsávarpi og greindi frá því að hershöfðinginn Abdel Fattah Abdelrahman Burhan tæki við stöðunni.

Mikil mótmæli hafa geisað í landinu síðustu mánuði og hafa þau haldið áfram þrátt fyrir afsögn al-Bashir. Talsmenn hers landsins hafa sagst munu stjórna landinu næstu tvö árin og muni þá fara fram kosningar í landinu. Leiðtogar mótmælenda hafa hins vegar sagt að þeir muni ekki hætta mótmælum fyrr en borgaraleg stjórn tekur við völdum í landinu.

Mótmælin í Súdan hófust í desember eftir tilkynningu frá súdönskum stjórnvöldum um að verð á brauði myndi þrefaldast. Síðustu vikur tóku mótmælin svo að snúast um kröfu um afsögn al-Bashir sem hafði stýrt landinu í um þrjá áratugi.

Í frétt BBC segir að ímynd hins nýja yfirmanns hersins sé nokkuð betri en ímynd Awad Ibn Auf og hafi Burhan nú þegar átt fundi með leiðtogum mótmælenda.

Forsetinn fyrrverandi, Omar al-Bashir, hefur verið ákærður af Alþjóðaglæpadómstólnum í Haag vegna stríðsglæpa og þjóðarmorðs, en súdanski herinn hefur sagt að al-Bashir komi ekki til með að verða framseldur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×