Bankastjóri Arion segir starfi sínu lausu

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum.
„Nú eru um níu ár síðan ég kom til starfa hjá bankanum. Óhætt er að segja að verkefnin hafi verið fjölbreytt á þessum árum. Fyrstu árin fólst verkefnið fyrst og fremst í að takast á við skuldavanda viðskiptavina bankans, bæði fyrirtækja og heimila. Þá var hlutfall vandræðalána hjá bankanum vel yfir 50% en er í dag í takt við það sem best gerist hjá fjármálafyrirtækjum í löndunum í kringum okkur.“
Við hafi tekið vinna við uppbyggingu bankans.
„Arion banki er í dag með skýra framtíðarsýn, öflugan mannauð og í forystu hér á landi þegar kemur að þróun fjármálaþjónustu. Eftir vel heppnað alþjóðlegt hlutafjárútboð á síðasta ári var bankinn skráður á markað í kauphallir á Íslandi og í Svíþjóð og er eignarhald bankans í dag vel dreift og hluthafar bæði innlendir og erlendir fjárfestar. Bankinn er fjárhagslega sterkur með traustan grunnrekstur og vel í stakk búinn fyrir það sem framtíðin ber í skauti sér. Ég tel þetta vera rétta tímann til að fela öðrum að taka við keflinu.“
Arion banki tapaði miklum fjármunum á gjaldþroti Primera Air á síðasta ári og afkoma bankans var undir væntinum á síðasta ári. Alls dróst hagnaður bankans og arðsemi saman um tæpan helming á milli áranna 2017 og 2018.
Höskuldur sagði í viðtali við fréttastofu í febrúar:
„Við erum þarna með fjárhagsliði, skuldabréfamarkað og stöður gagnvart einstökum fyrirtækjum til dæmis í fluggeiranum. Það reyndist okkur mjög þungt á síðasta ári og eru svona megináhrifin,“
Tengdar fréttir

Segja Arion banka verða að sýna meiri ráðdeild
Sérfræðingar Capacent hafa lækkað verðmat sitt á bankanum um 4,5 prósent frá því í nóvember í fyrra og meta nú gengi hlutabréfa hans á 85 krónur á hlut.

Stoðir með um 4,5 prósenta hlut í Arion
Fjárfestingafélagið Stoðir keypti um þriðjung af þeim tíu prósenta hlut sem Kaupþing seldi í síðustu viku. Er nú orðinn stærsti íslenski hluthafi bankans.

Bankastjóri Arion segir stjórnvöld fara offari í álögum á bankana
Stjórnvöld stýra fólki í átt að viðskiptum hjá erlendum bönkum og lífeyrissjóðum með of miklum álögum á íslensku bankana að mati bankastjóra Arion banka. Verið sé að skoða hvort hækka eigi vexti á fyrirtæki vegna aukinna opinberra gjalda. Bankastjórinn fékk ekki kaupauka fyrir árið 2018 þar sem hagnaður bankans dróst saman um tæpan helming.

Undirbýr sölu á stórum hlut í Arion
Kaupþing, stærsti hluthafi Arion banka, áformar að selja að lágmarki tíu prósenta hlut í bankanum á komandi vikum.