Skoðun

Kæra foreldri. Þekkir þú reglurnar sem gilda um notkun léttra bifhjóla?

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir skrifar
Vinsældir léttra bifhjóla í flokki I hafa aukist mikið hér á landi og sérstaklega hjá börnum og ungmennum. Við hjá Samgöngustofu fáum reglulega fyrirspurnir um reglur sem gilda um léttbifhjól eða vespur. Gefinn hefur verið út einblöðungur sem inniheldur upplýsingar um helstu atriði varðandi notkun þeirra og öryggi. Einblöðungurinn hefur verið sendur á alla grunnskóla landsins og er aðgengilegur á heimasíðu Samgöngustofu.

Flokkur I og flokkur II

Létt bifhjól í flokki I eða rafvespur eru þægilegur ferðamáti og eru þau í senn gagnleg, umhverfisvæn og skemmtileg tæki – ef þau eru notuð rétt. Um er að ræða vélknúin ökutæki sem ná ekki meiri hraða en 25 km/klst. hvort sem þau eru raf- eða bensíndrifin. Ökumaður bifhjólsins verður að vera orðinn 13 ára en ekki er gerð krafa um bifhjólapróf. Ökumönnum er skylt skv. lögum að vera með hjálm og gott er að nota viðurkenndan lágmarkshlífðarfatnað ætlaðan til aksturs á bifhjóli. Ökumaður yngri en 20 ára má ekki aka með farþega á hjólinu.

Ef hjólið kemst hraðar en 25 km/klst. er það komið í flokk II þar sem krafist er bifhjólaprófs eða ökuskírteinis. Foreldrar þurfa að vera meðvitaðir um að hægt er að breyta hámarkshraða hjólanna sé mikill vilji til þess. Einhver dæmi eru um að það sé gert án vitneskju foreldra og ábyrgðarmanna og þar með er hjólið komið í næsta flokk.

Deilum stígnum

Heimilt er að aka vespum á gangstétt, hjólastíg eða gangstíg svo framarlega sem það veldur ekki hættu eða óþægindum fyrir gangandi vegfarendur eða ef lagt hefur verið bann við því. Þar sem hámarkshraði þeirra er 25 km/klst. er ekki mælt með því að þau séu notuð í almennri umferð þar sem hraði er meiri en 50 km/klst. - þó það sé heimilt. Á gangstétt eða gangstíg skal víkja fyrir gangandi vegfarendum og ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða gangstíg er skylt að aka hjólinu á hjólastígnum. Ef ökumaður hjólsins þverar akbraut frá gangstíg skal hann ekki aka hraðar en sem nemur venjulegum gönguhraða.

Mikilvægt er að við tökum höndum saman, fækkum slysum með því að leiðbeina ungum vegfarendum um notkun og öryggi á léttum bifhjólum í flokki I. Við viljum sérstaklega höfða til foreldra að sýna ábyrgð í verki og sjá til þess að þessum reglum sé fylgt. Slysin verða ekki aftur tekin.

Kolbrún G. Þorsteinsdóttir

Sérfræðingur í öryggis- og fræðsludeild

Samgöngustofu




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×