Mikið álag hefur verið á starfsfólki Vinnumálastofnunar vegna gjaldþrots WOW air en í byrjun mánaðarins höfðu stofnuninni borist um 700 umsóknir um atvinnuleysisbætur frá fyrrverandi starfsfólki flugfélagsins.

Starfsfólk Vinnumálastofnunar hafði hugsað sér að ferðast til Rotterdam í Hollandi og skemmta sér saman en Unnur segir að gjaldþrot WOW air hafi sett strik í reikninginn.
„Það sem við héldum að yrði venjulegur aprílmánuður þegar við skipulögðum ferðina varð að einhverju allt öðru. Það er miklu meira að gera hér en vanalega. Starfsfólkið er auðvitað fúlt yfir því að missa af ferðinni en hér er samt sem áður góð stemning, starfsfólkið stendur saman og skilur aðstæður.“ Unnur segir alla starfsmenn hafa fengið ferðina endurgreidda að fullu en starfsfólk fjármagnaði ferðina sjálft.
Vilmar tekur undir orð Unnar og segir stemninguna á vinnustaðnum góða. „Það er svolítið skrítið að þegar það þurfa allir að leggjast á eitt þá verður stemningin oft góð, þó að það sé brjálað að gera.“
Unnur og Vilmar segja mikilvægt að sýna starfsfólkinu þakklæti fyrir vel unnin störf og að stefnt sé að því að skipuleggja aðra ferð sem farin verði við betri aðstæður. Einnig segja þau það vera á stefnuskránni að halda vorfagnað í maí þar sem starfsfólkið gerir sér glaðan dag og fagnar saman vorinu.