Erlent

Segir forsætisráðherra Bretlands sýna „þrælslund“ í garð Trump

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jeremy Corbyn.
Jeremy Corbyn. Christopher Furlong/Getty
Jeremy Corbyn, formaður breska Verkamannaflokksins og leiðtogi stjórnarandstöðunnar, segist ekki vilja sækja veislu til heiðurs Donald Trump Bandaríkjaforseta í Buckingham-höll. Veislan kemur til með að fara fram í júní.

Corbyn segir ekki rétt að „rúlla fram rauða dreglinum“ til heiðurs forsetanum, sem hann segir notast við orðræðu sem ýti undir kynþáttafordóma og kvenfyrirlitningu. Ekki þyrfti slíka viðhöfn til þess að styrkja samband Bretlands og Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Corbyn.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, lofaði Trump veisluhöldunum þegar hann var kjörinn til embættis forseta í nóvember 2016.

„Það veldur mér vonbrigðum að forsætisráðherrann skuli enn og aftur sýna slíka þrælslund í garð þessarar ríkisstjórnar Bandaríkjanna,“ segir einnig í yfirlýsingu frá stjórnarandstöðuleiðtoganum.

John Bercow, forseti neðri þingdeildar breska þingsins, og Sir Vince Cable, leiðtogi Frjálslyndra demókrata, hafa einnig hafnað boði um að sitja veisluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×