Platan inniheldur sjö lög og segir Jóhann í samtali við Vísi að Joey 2 sé persónulegri en fyrri plötur. Hann gaf sér góðan tíma í að vinna plötuna en plötuna vann hann í samstarfi við Martein Hjartarson sem er betur þekktur sem Bangerboy.
„Þessi plata er miklu persónulegri. Tíminn hefur hjálpað mér að finna mína rödd í músíkinni og hvernig músík ég vil gera,“ segir Jóhann.
Þeir félagar byrjuðu að vinna plötuna í september árið 2017 en tóku sér hlé árið 2018. Undir lok árs 2018 og í byrjun þessa árs kláruðu þeir svo plötuna og segir Jóhann tvö tímabil koma saman á plötunni.
„Ég er mjög ánægður að við tókum okkar tíma í að gera hana,“ segir Jóhann að lokum.