Þetta kemur fram í viðtali tímaritsins Tatler við leikkonuna en Fréttablaðið greindi frá fyrst íslenskra miðla. Í viðtalinu lýsir Hathaway því að hún hafi farið út að borða á veitingastað í Reykjavík ásamt eiginmanni sínum Adam Schulman en með í för var einnig meðleikari hennar í Interstellar, Matt Damon. Þeim hafi verið boðinn lax á veitingastaðnum, sem Damon hafi verið afar spenntur fyrir, og hún hafi ákveðið að „fylgja straumnum“.
„Þannig að ég spurði: Er fiskurinn veiddur hér? Og þau sögðu: Sérðu þennan fjörð? Þannig að ég fékk mér bita af laxi og mér leið eins og heilinn í mér væri tölva að endurræsa sig.“
Hathaway hefur áður greint frá því að hún hafi ofkælst við tökur á Interstellar hér á landi. Hún var þá að leika í atriði sem gerist í ísköldu vatni og var í blautbúningi. Vatn lak inn í búninginn og neyddist Hathaway til þess að vera í vatninu í margar klukkustundir.
Þá er þetta ekki í fyrsta skipti sem hún segir laxasöguna í fjölmiðlum en hún ræddi kveðjustund sína við veganisma einnig í viðtali við Harper‘s Bazaar árið 2014.