Innlent

Vegagerðin innkallaði bankaábyrgðir vegna nýs Herjólfs

Kolbeinn Tumi Daðason og Sighvatur Jónsson skrifa
Nýr Herjólfur í prufusiglingu í Póllandi.
Nýr Herjólfur í prufusiglingu í Póllandi. Mynd/Vegagerðin
Íslenska ríkið hefur krafist þess að skipasmíðastöðin Crist í Póllandi sem smíðar nýjan Herjólf endurgreiði þann kostnað sem greiddur hefur verið vegna smíði skipsins. Björgvin Ólafsson, umboðsmaður skipasmíðastöðvarinnar hér á landi, segir þetta ígildi riftunar samnings um nýsmíðina.

Björgvin segir að ríkið hafi krafist endurgreiðslu á um 85% af fjórum milljörðum króna sem var heildarkostnaður framkvæmdanna.

Björgvin segir að í næstu viku hefjist undirbúningur að sölu nýs Herjólfs. „Þegar þeir eru búnir að fá peningana sína til baka þá er hann ekkert lengur í eigu Íslendinga,“ segir Björgvin.

Hann segir að ákvörðun Vegagerðarinnar hafi komið skipasmíðastöðinni á óvart. „Já, þetta kom okkur öllum verulega á óvart. Við héldum að menn væru á lokametrunum að ná þessu saman.“ 

Maciej Lisowski, fulltrúi Crist sem fundaði með samgönguráðherra í Reykjavík á föstudaginn, vildi ekkert tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Hann sagði að mögulega væri von á yfirlýsingu frá skipasmíðastöðinni í dag.

Vegagerðin átti ekki annan kost

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að Vegagerðin hafi ekki rift samningnum við skipasmíðastöðina Crist. Vegagerðin hafi hins vegar innkallað bankaábyrgðir sem annars myndu renna út í dag og höfðu ekki verið framlengdar.

„Í dag kemur í ljós hvort skipasmíðastöðin framlengir ábyrgðirnar en viðræður við þá eru í gangi og ekki hægt að tjá sig um gang mála í þeim. Vegagerðin átti engan annan kost en innköllun ábyrgða til að tryggja stöðu sína,“ segir í skriflegu svari frá G. Pétri við fyrirspurn fréttastofu.

Að neðan má sjá nýlegt kynningarmyndband Crist af nýjum Herjólfi.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Tengdar fréttir

Búið að dýpka um þriðjung fyrir Herjólf

Búið er að fjarlægja um 5.000 rúmmetra af sandi við Landeyjahöfn, um þriðjung þess sem þarf svo Herjólfur geti siglt þangað. Óvissa er um framhald dýpkunar vegna veðurspár.

Pólski sendiherrann vonar að nýr Herjólfur verði afhentur í næsta mánuði

Pólski sendiherrann á Íslandi vonar að nýr Herjólfur verði afhentur Vegagerðinni í næsta mánuði. Hann hafði milligöngu um fund fulltrúa skipasmíðastöðvarinnar hjá samgönguráðherra fyrir helgi. Ráðherra segist hafa hvatt til þess að skipasmíðastöðin og Vegagerðin næðu saman sem fyrst svo afhenda megi skipið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×