Skoðun

Loðnubrestur í ferðaþjónustunni

Sigrún Hjartardóttir skrifar
Ferðaþjónustan hefur fest sig rækilega í sessi sem undirstöðuútflutningsgrein. Engum dylst mikilvægi hennar í gjaldeyrissköpun þjóðarinnar og um þriðjungur allra nýrra starfa í landinu frá árinu 2011 hefur orðið til í ferðaþjónustu. En eftir ævintýralegan vöxt undanfarin ár er næsta víst að samdráttur verður í komu erlendra ferðamanna til landsins árið 2019. Enda þótt öllum mætti vera ljóst að 25-30% árlegur vöxtur gæti ekki gengið til eilífðar og þrátt fyrir að lendingin sé e.t.v. harkalegri en á væri kosið, má þó greina þær raddir sem vilja meina að algjört svartnætti blasi við ferðaþjónustunni. En er það raunverulega svo?

Getur ekki verið að það sé gott fyrir greinina að fá þetta tækifæri til að staldra við, rýna í þróun undanfarinna ára og draga af henni lærdóm? Hvað var vel gert og hvað mætti betur fara? Það er eðlilegur hluti líftímakúrfu hverrar greinar og raunar hvers fyrirtækis að fara í gegnum þrengingar sem vissulega geta fylgt sársaukafullar aðgerðir en skila, ef vel tekst til, hagkvæmari og sterkari rekstri byggðum á raunhæfum áætlunum og sterkum stoðum. Það þýðir ekki að öll sund séu lokuð.

Hinn raunverulegir loðnubrestur sem útgerðin varð fyrir í byrjun árs olli miklum búsifjum fyrir greinina og ekki síst ýmis smærri bæjarfélög sem reiða sig á þær tekjur og atvinnu sem loðnuvertíðinni fylgir. Það er samt engin að tala um að nú þurfi sjávarútvegurinn að pakka saman. Ballið sé búið. Það er vegna þess að grein sem ætlar að vera til í langan tíma veit að eitt ár skiptir ekki höfuðmáli þegar horft er til næstu 50 eða 100 áranna. Markmiðið hlýtur að vera búa svo um hnútana að greinin geti tekið á sig „loðnubrestinn“ þegar hann dynur yfir. Því það mun alltaf gerast, hvaða nafni sem það nefnist hverju sinni, eldgos, farsóttir, hamfarir eða gjaldþrot tiltölulega lítils flugfélags.

Höfundur er verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×