Innlent

Deildu um ársreikning

Ingunn Lára Kristjánsdóttir skrifar
Vigdís hyggst ekki undirrita ársreikninginn.
Vigdís hyggst ekki undirrita ársreikninginn. Fréttablaðið/Anton Brink
„Ef þetta á að vera einhvers konar túlkunaratriði, að það vanti hér heimildir fyrir fjárútgjöldum og það eigi að leysa þær í ársreikningi, þá er það eitthvað alveg nýtt á Íslandi. Alveg nýtt bæði fyrir lögmenn og endurskoðendur,“ sagði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, við fyrri umræðu um ársreikning borgarinnar fyrir 2018 sem fram fór í gær. Vigdís segist ekki ætla að skrifa undir ársreikninginn.

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna, segir að með ársreikningnum sé verið að senda borgarstjórn gula spjaldið. „Ekki hefur tekist að greiða niður skuldir í góðæri og skuldasöfnun A-hluta og samstæðu halda áfram að vaxa á fullu. Skuldir hækka um 25 milljarða á síðasta ári, meira en tvo milljarða á mánuði. Skuldir voru 324 milljarðar um áramót en áttu að vera 299 milljarðar samkvæmt fjárhagsáætlun,“ segir Eyþór.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir ársreikninginn hins vegar sýna sterkan rekstur borgarinnar. „Á undanförnum árum hefur verið áhersla á að bæta fjármagni inn í velferðar- og skólamál ásamt gríðarlega umfangsmiklum fjárfestingum í innviðum,“ segir Dagur.

Fyrst og síðast dragi uppgjörið fram borgarrekstur sem geti státað af ábyrgri fjármálastjórn, hafi metnað fyrir framúrskarandi þjónustu, leggi áherslu á góða innviði og forgangsraði í þágu velferðarmála og skólamála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×