Sáttaumleitanir milli stjórnvalda og hinna nýsýknuðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálum og aðstandenda þeirra eru að sigla í strand eftir að Guðjón Skarphéðinsson hafnaði bótatilboði sáttanefndar stjórnvalda.
Eins og Fréttablaðið greindi frá hafði sáttanefndin úr 600 milljónum að spila og samkvæmt heimildum blaðsins hafði ríkið bætt eitthvað í þannig að hæstu tilboð um bætur fóru yfir 200 milljónir. Heimildir blaðsins herma að góður sáttatónn hafi verið í flestum og útlit verið gott um að sættir gætu náðst, þar til Guðjón Skarphéðinsson hafnaði tilboði sáttanefndarinnar.
Eins og greint hefur verið frá hljóðaði bótakrafa Guðjóns upp á rúman milljarð í miskabætur og um það bil 400 milljónir að auki í bætur fyrir missi atvinnutekna.
Höfuðáhersla hefur verið lögð á það í sáttaferlinu að ná sáttum við allan hópinn og ljúka málinu utan dómstóla. Heimildir Fréttablaðsins herma að verulega hafi súrnað í viðræðum eftir að Guðjón gekk frá borði og mun sáttanefndin eiga það eina verk eftir í starfi sínu að semja skilabréf sitt til forsætisráðherra.
Andri Árnason, settur ríkislögmaður í málinu, á eftir að taka formlega afstöðu til kröfu Guðjóns og þar sem ekki var gengið að henni við borð sáttanefndar er ólíklegt annað en að henni verði hafnað.
Að óbreyttu munu því dómstólar ákveða bætur í málinu og má búast við að um þær verði rekin nokkur dómsmál.
Óvíst er hvernig farið verður með mál aðstandenda Sævars Marinós Cisielski og Tryggva Rúnars Leifssonar sem eru látnir, en bótaréttur þeirra er ekki sá sami og þeirra Guðjóns, Kristjáns Viðars Júlíussonar og Alberts Khlan Skaftasonar sem enn eru á lífi og eiga hlutlægan bótarétt.
Innlent