Skoðun

Sameinað Alþingi

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Staða innflytjenda í menntakerfinu var nýverið til umræðu á Alþingi og var málshefjandi umræðunnar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Umræðurnar snerust mikið til um stöðu barna og ungmenna með annað móðurmál en íslensku. Rannsóknir benda til þess að ein helsta áskorun íslensks menntakerfis sé staða slíkra nemenda en hlúa þarf mun betur að námsframvindu þeirra. Niðurstöður alþjóðlegu menntakönnunarinnar PISA staðfesta mikilvægi þess, skólasókn innflytjenda í framhaldsskóla er minni en annarra nemenda og vísbendingar eru um að brottfall sé algengara meðal þeirra og aðsókn í háskóla minni.

Áskoranir þessara nemenda eru margþættar en tungumálið er óneitanlega sú stærsta. Stjórnvöld leggja nú sérstaka áherslu á að efla íslenskuna á sem flestum sviðum. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga þess efnis og inniheldur hún heildstæða aðgerðaáætlun í 22 liðum. Í henni er meðal annars lagt til að þeir sem búsettir eru á Íslandi og hafa annað móðurmál en íslensku, börn jafnt sem fullorðnir, fái viðeigandi og jafngild tækifæri til íslenskunáms og stuðning í samræmi við þarfir sínar. Að auki hefur verið settur á laggirnar starfshópur sem Jóhanna Einarsdóttir, prófessor í menntunarfræðum ungra barna, fer fyrir. Sá hópur mun móta heildarstefnu í málefnum barna með annað móðurmál en íslensku. Einnig höfum við þegar gripið til beinna aðgerða til að bæta þjónustu með því að þrefalda framlög til sérstakrar íslenskukennslu.

Það sem var ánægjulegast við þessa sérstöku um­ræðu í þinginu var sá einhugur sem ríkir um að gera betur í málefnum barna með annað móðurmál en íslensku. Sú þverpólitíska samstaða um að gera betur í þessum efnum er dýrmæt og þótti mér vænt um að heyra innlegg þeirra þingmanna, úr öllum flokkum, sem lögðu sitt af mörkum til hennar. Þingmenn eru tilbúnir í þessa vegferð og vilja bæta þá þjónustu sem við veitum börnunum okkar. Við erum opið og framsækið samfélag sem vill nýta hæfileika allra þeirra sem búa hér. Í sameiningu og samvinnu munum við vinna að umbótum á menntakerfinu, til heilla fyrir samfélagið allt.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×