Skoðun

Ræðusnilld

Óttar Guðmundsson skrifar
Mannkynssagan geymir nöfn nokkurra afburða ræðusnillinga. Í Grikklandi hinu forna voru heimspeki og orðsnilld samofin þar sem Demosþenes bar af öðrum ræðumönnum. Sagt var að hann gæti með mælsku sinni og skarpri rökhugsun flutt fjöll úr stað. Íslendingar hafa ekki átt mikla ræðuskörunga síðan Þorgeir Ljósvetningagoði flutti kristnitöku­ræðu sína árið 1000 og Jón Steingrímsson stöðvaði Skaftárelda með orðkynngi sinni.

Nú berast hins vegar fréttir frá Alþingi um óvenju snjalla ræðumennsku. Þingmenn Miðflokksins hafa á undanförnum sólarhringum talað þindarlaust og oft blaðlaust á Alþingi um þriðja orkupakkann. Þessir menn höfðu áður í hinu svokallaða Klausturmáli vakið athygli fyrir kjarnyrta og snjalla málnotkun. Á löngum næturfundum Alþingis virðast þeir innblásnir af heilögum anda eldklerksins.

Því miður virðist þessi mikla snilld vera að ganga yfir eins og rigningarskúr sem enginn tekur eftir. Miðflokksmenn hafa haldið eldræður sínar fyrir galtómum þingsal. Skorinorður og meitlaður málflutningur hefur svifið út í tómið án þess að nokkurt mannlegt eyra næmi snilldina.

Það er krafa allra landsmanna að ræðurnar verði gefnar út á prenti og sem hljóðbækur sem námsefni í skólum. Æska landsins þarf að læra að koma fyrir sig orði og nota íslenskuna eins og hún á skilið. Brottfallið úr skólunum mundi kannski aukast en það skiptir engu í þessu samhengi. Með hljóðbókunum mætti bæta svefn landsmanna og minnka sívaxandi svefnlyfjanotkun. Þessar bækur mætti nota í íslenskukennslu fyrir útlendinga til að minnka straum hælisleitenda til landsins. Hljóðbækurnar eru tilvalin tækifærisgjöf til Íslendinga í útlöndum. Þessi sögulegu menningarverðmæti mega ekki glatast.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×