Hún ber gæluheitið „That's All, Brother" en vélin neyddist til að lenda í Keflavík laust fyrir miðnætti í gærkvöldi þar sem hún náði ekki inn fyrir lokunartíma Reykjavíkurflugvallar klukkan 23. Henni var svo flogið yfir til Reykjavíkur í dag þar sem hún lenti í hádeginu.

„Þessi flugvél var forystuvél á D-daginn. Hún fór fyrir 800 flugvélum inn yfir Frakkland 6. júní 1944,“ segir Tom Travis.
„Þetta er þjóðargersemi. Hún er sennilega sögulega markverðasta flugvél sem enn flýgur. Elona Gay og Boxcar-vélarnar eru á söfnum, Spirit of St. Louis er á safni og henni er ekki flogið lengur. Þessari er enn flogið. Svo þetta er sennilega markverðasta flugvél sem enn er flogið,“ segir flugstjórinn.

Samgöngustofa segist hvorki veita né synja óskum um slíkar undanþágur, heldur séu það rekstraraðilar flugvalla, í þessu tilviki Isavia, og vísar þangað um svör.
Frá Isavia fengust þær skýringar að áhöfninni hefði verið tilkynnt að sækja þyrfti um undanþágu til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til að sveigja hávaðareglur borgarinnar og hafi áhöfninni verið tjáð að slík undanþága fengist ekki í tæka tíð.
„Við gátum ekki lent hérna því yfirvöld lokuðu flugvellinum. Svo við urðum að fara annað.“
-Voru það vonbrigði?
„Já, svo sannarlega. En svona er lífið. Stundum er þetta svona,“ segir Tom Travis.
