Það voru nokkrar áhugaverðar breytingar gerðar á íslenska liðinu. Birkir Már Sævarsson var ekki einu sinni í 23 manna leikmannahópi og Hjörtur Hermannsson kom í hans stað. Arnór Sigurðsson var ekki heldur í liðinu og Rúnar Már S. Sigurjónsson var á kantinum. Hannes Þór Halldórsson hélt svo sæti sínu í markinu en miklar vangaveltur voru um hver myndi standa í markinu.
Leikurinn byrjaði svo sem ekkert frábærlega. Hjörtur lét grípa sig í bólinu eftir þriggja mínútna leik, Albanir náðu góði skoti á markið en Hannes varði laglega.
Hinn nýi þjálfari Albana, Edy Reja, vildi sjá sitt lið stýra leiknum og sækja meira og hans menn urðu við því framan af. Þeir voru síst lakari aðilinn.

Albanska liðið náði aldrei að ógna af neinni alvöru það em eftir lifði leiks og okkar menn unnu sanngjarnan sigur. Ekkert sérstaklega fallegan en stigin voru það eina sem í raun skipti máli í dag. Liðið mátti ekki misstíga sig.
Ekkert sérstakur andstæðingur
Leikirnir gegn Albaníu í gegnum tíðina hafa verið frekar leiðinlegir en strákarnir oftar en ekki náð að klára þá. Á því varð engin undantekning núna.
Ég verð að viðurkenna það að albanska liðið var lélegra en ég átti von á. Liðið var mjög tæpt í vörninni, gaf boltann oft frá sér á hættulegum stöðum og svo lét vörnin Jóhann Berg auðvitað pakka sér saman.
Miðað við hversu slakur varnarleikur Albana var hefði ég viljað sjá íslenska liðið skora fleiri mörk. Þessi leikur hefði hæglega getað unnist með 2-3 marka mun.

Ef íslenska liðið ætlar sér að vinna Tyrkland þá verður það að gera talsvert betur en í dag. Liðið vinnur ekki gott lið Tyrkja með svona frammistöðu.
Alvöru barátta
Það sem var þó aðalsmerki liðsins var baráttan. Menn voru gríðarlega einbeittir og til í að fórna sér fyrir þremur stigum. Allir sem einn. Eðlilega spilar kannski inn í frammistöðuna pressan að verða að taka þrjú stig í þessum leik eða lenda í hræðilegri stöðu í riðlinum.
Strákarnir gerðu það sem þurftu til að vinna. Fengu þrjú stig og sigrar hafa ekki beint verið að koma á færibandi síðustu mánuði. Þetta var því kærkomið. Það vill kannski enginn fá DVD af þessum leik í jólagjöf en stigin voru lífsnauðsynleg. Þá þarf stundum að vinna iðnaðarsigur.
Flott innkoma Kolbeins
Jóhann Berg fór af velli og vonandi tekst sjúkraþjálfurum að koma honum á lappir fyrir Tyrkjaleikinn. Kolbeinn Sigþórsson fékk 30 mínútur og var allt annað að sjá hann en í síðustu landsleikjum. Hann er að styrkjast, lét til sín taka og var næstum búinn að skora. Vonandi heldur þetta áfram á sömu braut hjá honum.
Gylfi og Aron voru öflugir og virka í góðu formi. Skortur á leikformi var klárlega að há Birki Bjarnasyni sem hefur oft verið betri.
Flestir eiga meira inni og með bættum leik og sömu baráttu geta strákarnir án nokkurs vafa tekið þrjú stig gegn Tyrkjum á þriðjudag.