Lúsmýið hefur látið verulega á sér kræla undanfarnar vikur á landinu en síðustu daga hefur það einnig færst yfir á höfuðborgarsvæðið og hefur verið óvelkominn fylgikvilli sumarsins. Kvartanir yfir bitum lúsmýsins heyrast hátt og kannski ekki að ástæðulausu en lúsmý hefur rokið upp úr öllu valdi frá árinu 2014.
Mæla með stera- og kláðastillandi kremum
Í samtali við fréttastofu sögðust vakthafandi hjúkrunarfræðingar á Læknavaktinni hafa fengið í það minnsta fimm símtöl frá fólki í morgun þar sem leitað var ráða vegna bita og það sama hafi verið uppi á teningnum undanfarna daga og vikur.Er fólki ráðlagt að nota stera- og kláðastillandi krem á bitin og jafnvel taka verkjatöflur ef bitin valda fólki miklum óþægindum. Í undantekningartilfellum gæti þurft að leita til læknis og fá sterasprautur.
Ekki er vitað nákvæmlega hvers vegna þessi aukning í lúsmý hefur orðið hér á landi en Erling Ólafsson, skordýrafræðingur, hefur áður sagt að skýringin sé líklega í breyttu veðurfari. Landsmenn hafa fagnað hlýju veðurfari undanfarinna vikna en svo virðist sem að lúsmýið komi í kaupbæti, mörgum til mikils ama.
Helstu leiðir til þess að forðast lúsmý eru að koma í veg fyrir að vatn safnist fyrir í görðum, svo sem í blómapottum eða kerjum. Skordýrafælandi krem og úðar sem fást í apótekum duga hvað best í baráttunni við lúsmý og geta mýflugnagildrur einnig verið gagnlegar. Þá er mælt með því að klæðast langerma bolum og síðum buxum, sérstaklega gallabuxum, og forðast það að ganga berfættur.