Þetta kom fram í viðtali við Óla Björn í Reykjavík síðdegis í dag þar sem aðgerðaáætlun landlæknis til að draga úr sykurneyslu var rædd. Í aðgerðaráætluninni er lagt til að sælgæti og gosdrykkir sem innihalda sykur og sætuefni verði færð úr neðra þrepi virðisaukaskatts í hærra þrep.
Óli Björn segir engar rannsóknir benda til þess að slík hækkun leiði til bætts heilsufars þjóða. Hann vitnaði þar í skýrslu sem unnin var á vegum heilbrigðisráðuneytis Nýja-Sjálands sem fór yfir rannsóknir í þessum efnum.
„Auðvitað hafa skattar einhver áhrif á hegðan fólks en veltum því fyrir því okkur hvernig verð hefur áhrif á eftirspurn eftir vöru. Neysluvörur eru til dæmis ekki mjög verðteygnar, það er að segja verðið hefur ekki mikil áhrif á nauðsynjavörur,“ segir Óli Björn og bætir við að það sama eigi við um ávanabindandi vörur.
„Ávanabindandi er sykur, ég held að fólk sé að gera sér grein fyrir því að það er. Það má draga ályktun af því að jafnvel þótt að menn leggi hér alveg gríðarlega háan skatt á sykur þá muni það ekki draga úr neyslu á sykri hjá þeim sem við erum að reyna að ná til.“

Viðhorfið skiptir mestu máli
Óli Björn segist vera fylgjandi því að grípa til aðgerða til þess að bæta lýðheilsu þjóðarinnar. Hann hafi þó ekki séð nein sannfærandi rök fyrir því að leggja hér á sykurskatt.„Þvert á móti, ég hygg að þetta muni verða til þess að einhverjum ráðamönnum líði betur þegar þeir telja sér trú um það að þeir séu að taka þátt í baráttu gegn offitu og ofneyslu á sykri,“ segir Óli Björn sem telur að sykurskatturinn yrði til þess að mikilvægari aðgerðir myndu sitja á hakanum. Í stað þess að skattleggja sykur ætti frekar að vinna í því að efla forvarnir og breyta viðhorfi fólks til sykurneyslu.
„Ég held að þetta snúist fremur um viðhorf heldur en skattlagningu og við höfum séð hvernig viðhorfið hefur verið að breytast hér til bættrar heilsu, viðhorf gagnvart reykingum, gagnvart áfengisneyslu í hófsemi og gagnvart hreyfingu.“
Viðtalið við Óla Björn má heyra í spilaranum hér að neðan.