Í aðgerðaáætlun landlæknis til að draga úr sykurneyslu er lagt til að sælgæti og gosdrykkir sem innihalda sykur og sætuefni verði færð úr neðra þrepi virðisaukaskatts, sem er 11 prósent, í hærra þrep vrðisaukaskatts sem er 24 prósent. Samhliða þessu er lagt til að sett verði sérstakt vörugjald á þessar vörur en saman á þetta tvennt að skila 20 prósenta hækkun á verði sælgætis og gosdrykkja í þeim tilgangi að draga úr sykurneyslu.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti aðgerðaáætlunina í ríkisstjórn síðastliðinn föstudag. Var á fundi ríkisstjórnarinnar ákveðið að skipa starfshóp sem falið verður að innleiða áætlunina.
Sykurneysla er helsti orsakvaldur áunninnar sykursýki og offitu
Sykur er helsti orsakvaldur áunninnar sykursýki og offitu á heimsvísu. Bandaríski læknirinn Robert H. Lustig, sem er sérfræðingur í offitu barna og prófessor við læknadeild University of California, heldur því fram að viðbættur sykur sé eitur í ljósi þess hvernig líkaminn brýtur efnið niður. Víða um heiminn hefur lýðheilsuáætlunum verið ýtt úr vör í þeim tilgangi að draga úr sykurneyslu og til að draga úr offitu.Rannsóknir sýna að skattlagning á sykraðan mat og drykk virkar ef hún er áþreifanleg. Hún þarf að vera nægilega há svo neytendur breyti hegðun sinni. Í mars síðastliðnum birtust niðurstöður á áhrifum sykurskatts í Berkeley í Kaliforníu þremur árum eftir innleiðingu sykurskattsins þar í borg. Samkvæmt niðurstöðunum, sem birtust í American Journal of Public Health, dróst neysla á gosdrykkjum saman um helming eftir innleiðingu sykurskattsins.
Í aðgerðaáætlun landlæknis er því haldið fram að lýðheilsusjónarmið hafi ekki ráðið för síðast þegar sykurskattar voru innleiddir á Íslandi í formi vörugjalda enda hafi skattlagningin verið allt of hófleg og óveruleg.
„Árið 2013 var gerð tilraun hér á landi til að setja vörugjöld á vörur sem innihéldu sykur eftir sykurinnihaldi og átti sú aðgerð að vera lýðheilsuaðgerð en þegar upp var staðið var ekki tekið tillit til lýðheilsusjónarmiða við þá framkvæmd. Þá hækkuðu sykraðir gosdrykkir einungis um 5 krónur á lítra og súkkulaði lækkaði í verði þar sem vörugjöld sem fyrir voru á súkkulaði voru hærri en þau vörugjöld sem lögð voru á eftir sykurinnihaldi. Embætti landlæknis benti þá á að þessi aðgerð væri ekki líkleg til árangurs heldur væri áþreifanleg hækkun á verði gosdrykkja og sælgætis árangursríkari leið til að draga úr sykurneyslu landsmanna og virka þannig sem forvarnaraðgerð til að draga úr óheilbrigðum neysluvenjum. Það hafa því í raun aldrei verið settar álögur á sykruð matvæli á Íslandi út frá lýðheilsusjónarmiðum,“ segir í aðgerðaáætluninni.
Karl Andersen, sérfræðingur í hjartalækningum og yfirlæknir Hjartagáttar Landspítalans, hefur í sínu starfi verið í áratugi í návígi við skaðlegar afleiðingar sykurneyslu. Hann segist fagna áformum um hækkun virðisaukaskatts á sykruð matvæli.
„Ég held þetta sé mjög þarft skref og löngu tímabært. Við höfum séð afleiðingar af vaxandi sykursýki á Íslandi sem hefur tvöfaldast á síðustu tuttugu til þrjátíu árum og er beinlínis afleiðing af of mikilli sykurneyslu. Þetta er vel þekkt á Íslandi. Við vitum að í samanburði við Norðurlöndin innbyrðum við langmest af sykri og það gildir um sykraða gosdrykki líka,“ segir Karl.
Norðmenn riðu á vaðið 1981
Sykurskattar hafa verið innleiddir í 46 þjóðríkjum og borgum víðs vegar um heiminn síðan Norðmenn riðu á vaðið árið 1981. Fjölmargar borgir Bandaríkjanna eru á listanum en þar má nefna Berkeley, Albany, Philadelphia, Oakland, San Francisco og Seattle. Mörg þeirra ríkja sem hafa innleitt sykurskatta hafa gert það á síðustu tveimur árum en þar má nefna Portúgal, Indland, Tæland, Filippseyjar, Suður-Afríku, Bretland, Írland og Perú. Sum þeirra ríkja sem hafa sykurskatt eru að hækka hann um þessar mundir en þar má nefna Noreg og Frakkland.Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með skattlagningu til að draga úr sykurneyslu í sínum tilmælum.
„Það hefur verið sýnt fram á að skattlagning á óhollustu dregur úr neyslu hennar. Í raun er hér verið að beita sömu aðferðafræði og við höfum gert í nokkra áratugi, með mjög góðum árangri, gegn tóbakinu,“ segir Karl Andersen.