Innlent

Telur viðhald á skólum hafa setið of lengi á hakanum

Kristín Ýr Gunnarsdóttir skrifar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur lagt fram fyrirspurn til skólayfirvalda í Reykjavík um hvernig bregðast eigi við heilsuspillandi ástandi í Hagaskóla. Hún telur að skólastarf þar muni raskast í haust verði ekki gripið til aðgerða í sumar.



Samkvæmt niðurstöðum mælinga verkfræðistofunnar Mannvits er meðalstyrkur koltvísýrings í lofti í öllum skólastofum Hagaskóla of hár og uppfyllir ekki núgildandi kröfur byggingareglugerðar. Þetta kemur fram í fyrirspurn til skóla- og frístundaráðs þar sem Marta Goðadóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, spyr hvernig bregðast eigi við. Hún segir dæmi þess að börn hafi mætt hress í skólann á morgnana en komið slöpp heim seinni partinn, húsnæðið sé augljóslega heilsuspillandi.



„Við spurðumst fyrir hvort að það yrði farið í framkvæmdir í sumar þannig að við gætum boðið nemendum og starfsfólki upp á almennilegar aðstæður þannig að þau þurfi ekki að vera í heilsuspillandi húsnæði við sín störf,“ segir hún.



Upp á síðkastið hafa borist fregnir af fjölda skóla þar sem eru rakaskemmdir og myglusveppir. Má þá nefna Fossvogsskóla, Breiðholtsskóla, Seljaskóla og svo er Ártúnsskóli til skoðunar. Einnig bendir Marta á að nokkrar frístundamiðstöðvar hafa þurft að flytja starfsemi vegna myglu. Hún telur borgina forgangsraða rangt.



„Skólastarf er lögbundið starf og þetta er lögbundin þjónusta. Borgin á ávallt að forgangsraða í lögbundin verkefni en ekki gæluverkefni sem því miður hefur orðið raunin,“ segir hún.



Veistu til þess að það eigi að kanna einhverja fleiri skóla?



„Við höfum ekki fengið staðfestingu á því. Ég tel að við þurfum að endurbæta alla verkferla og gera áætlun á viðhaldi á skóla og húsnæði. Við höfum verið að tala um grunnskólana og frístundamiðstöðvarnar en þá eru leikskólarnir eftir og þar er ástandið víða dapurt líka,“ segir hún. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×