Erlent

Kýpverski raðmorðinginn dæmdur í lífstíðarfangelsi

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn fylgja fangaflutningabílnum sem færði Metaxas úr dómhúsinu í fangelsið í höfuðborginni Níkósíu.
Lögreglumenn fylgja fangaflutningabílnum sem færði Metaxas úr dómhúsinu í fangelsið í höfuðborginni Níkósíu. AP/Petros Karadjias
Dómstóll á Kýpur dæmdi höfuðsmann í hernum í sjöfalt lífstíðarfangelsi fyrir morð á fimm konum og tveimur börnum á þriggja ára tímabili. Dómurinn er sá þyngsti í réttarfarssögu eyríkisins.

Nicos Metaxas, sem er 35 ára gamall, játaði sök í tólf ákæruliðum um morð að yfirlögðu ráði og mannrán á fórnarlömbum sínum. Morðæðið hófst í september árið 2016 og stóð yfir fram í júlí í fyrra. Fórnarlömbin voru frá Filippseyjum, Rúmeníu og Nepal. Börnin tvö sem Metaxas myrti voru börn tveggja kvennanna, sex og átta ára gömul.

„Ég hef framið viðbjóðslega glæpi,“ sagði Metaxas sem grét þegar ákæran gegn honum var lesin upp. Vottaði hann fjölskyldum fórnarlamba sinna samúð sína, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Metaxas kynntist konunum á netinu en þær voru flestar verkakonur sem störfuðu meðal annars sem þernur. Upp komst um morðin í kjölfar þess að ferðamenn fundu lík einnar konunnar í námu í apríl. Síðasta fórnarlambið, yngra barnið, fannst látið í stöðuvatni fyrir tveimur vikum.

Málið hefur vakið mikinn hrylling á Kýpur þar sem svo alvarlegir glæpir eru fátíðir en einnig reiði. Yfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að hafa verið svifasein í rannsókn á hvarfi kvennanna. Sinnuleysið hafi mátt rekja til þess að konurnar voru erlendar. Dómsmálaráðherra landsins sagði af sér vegna málsins og lögreglustjórinn var látinn taka poka sinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×