Erlent

Metanfundur vekur vonir um líf á Mars

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjálfsmynd sem Curiosity-jeppinn tók af sér í hlíðum Sharp-fjalls á Mars árið 2015.
Sjálfsmynd sem Curiosity-jeppinn tók af sér í hlíðum Sharp-fjalls á Mars árið 2015. Vísir/EPA
Könnunarjeppi bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA hefur fundið vísbendingar um að töluvert magn lofttegundarinnar metans losni úr jarðvegi reikistjörnunnar Mars. Uppgötvunin er sögð óvænt en á jörðinni eru það yfirleitt lífverur sem framleiða metan. Frekari rannsóknir eru fyrirhugaðar til að varpa ljósi á uppruna gassins.

Niðurstöður rannsókna Curiosity-könnunarjeppans skiluðu sér til jarðar á fimmtudag og föstudag. NASA hefur enn ekki gefið út opinbera tilkynningu um metanfundinn en New York Times segir að jeppinn hafi greint metan í marsneska loftinu.

Yrði það staðfest að metan finnist á Mars kveikti það vonir um að líf sé hugsanlega að finna þar. Lofthjúpur Mars er næfurþunnur og hefði sólarljós og efnahvörf átt að hafa brotið metan niður á nokkrum öldum. Sé metan að finna þar nú þýddi það að gasið hafi orðið til tiltölulega nýlega.

Þó að Mars sé köld og hrjóstrug eyðimörk í dag telja vísindamenn að vatn hafi verið að finna á yfirborðinu í fyrndinni þegar reikistjarnan var hlýrri. Því hafa kenningar verið á lofti um að hafi örverulíf kviknað þar gæti það hafa lifað af undir yfirborðinu.

Lífverur sem lifa í súrefnissnauðu umhverfi á jörðinni, þar á meðal djúpt í berglögum neðanjarðar, mynda metan. Jarðhitaferlar geta einnig framleitt gastegundina og því er metanfundurinn á Mars ekki afdráttarlaus vísbending um að líf sé þar að finna. Þá er sagt mögulegt að metanið sé ævafornt og bundið djúpt í jarðlögum þaðan sem það gæti sloppið upp um sprungur.

Stjórnendur Curiosity breyttu rannsóknaráætlun farsins snarlega eftir að þeir fengu niðurstöðurnar í hendur til að fylgja þeim eftir. Fyrstu niðurstöður eru sagðar væntanlegar til jarðar í dag.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem vísbendingar um metan á Mars hafa fundist. New York Times segir að mælingar eldri könnunarfara hafi þó verið á mörkum þess að vera marktækar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×