Viðskipti erlent

Airbus fengið 226 pantanir frá ellefu félögum í nýju þotuna

Kristján Már Unnarsson skrifar
Indigo Partners pöntuðu 50 þotur af gerðinni A321XLR, þar á meðal fyrir Wizzair, sem flýgur til Íslands.
Indigo Partners pöntuðu 50 þotur af gerðinni A321XLR, þar á meðal fyrir Wizzair, sem flýgur til Íslands. Teikning/Airbus.
Airbus segir að stjarna flugsýningarinnar í París hafi klárlega verið hin nýja A321XLR. Ákvörðun um að hefja framleiðslu hennar var kynnt á mánudag en hún verður langdrægasta útgáfan af A-321 línu evrópska flugvélaframleiðandans. 

Airbus segir ellefu flugfélög hafa pantað alls 226 vélar. Þar af séu 99 vélar þar sem flugfélög uppfæra eldri pöntun á A321 yfir í XLR. 

Sjá nánar hér: Nýjasta þotan frá Airbus gæti orðið framtíðarvél Icelandair 

Meðal þeirra félaga, sem búin eru að tryggja sér pláss í framleiðsluröðinni, eru American Airlines með 50 þotur, Indigo Partners með 50 þotur, þar á meðal fyrir Wizzair, og Qantas með 36 þotur. 

Forstjóri American, Robert Isom, segir að Airbus-vélarnar muni leysa af hólmi 34 Boeing 757-200 þotur félagsins. Jafnframt opni þær tækifæri á nýjum flugleiðum, sem menn hafi til þessa ekki látið sig dreyma um.

American Airlines pantaði 50 þotur frá Airbus af nýju gerðinni. Þetta stærsta flugfélag heims hóf Íslandsflug í fyrrasumar.Teikning/Airbus.
Airbus segist hafa fundið fyrir sterkri eftirspurn á kaupstefnunni í París og hafi gert nýja samninga um alls 363 þotur. Þannig hafi A220-þotan einnig slegið í gegn og 85 slíkar verið pantaðar.

Hún hét áður Bombardier CS og kemur í tveimur lengdum sem taka á bilinu 100-150 farþega. Slík vél af lengri gerðinni CS300 lenti á Reykjavíkurflugvelli haustið 2016. 

Sjá nánar hér: Hljóðlátasta þota heims þurfti hálfa flugbrautina 

Þá segist Airbus hafa fengið pantanir í 24 breiðþotur af gerðinni A330. 

Stöð 2 fjallaði um nýju Airbus A321XLR-þotuna í fréttum í fyrrakvöld:


Tengdar fréttir

Næstu stórkaup Icelandair gætu orðið í þessari þotu

Ráðamenn Icelandair stefna að ákvörðun fyrir áramót um framtíðarskipan flugflotans sem gæti falið í sér stórfelld flugvélakaup. Ný langdræg farþegaþota Airbus er meðal þeirra sem helst koma til greina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×