Erlent

Annar helmingur Cassius látinn eftir fall

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Philippe Cerboneschi var 52 ára gamall.
Philippe Cerboneschi var 52 ára gamall. Getty/Franck Fife
Franski plötusnúðurinn og tónsmiðurinn Philippe Zdar lést eftir að hafa fallið út um glugga í París í gær. Frá þessu greinir umboðsmaður hans, en Zdar var 52 ára gamall.

Tónlistarmaðurinn, sem hét fullu nafni Philippe Cerboneschi, var annar helmingur rafsveitarinnar Cassius sem hann stofnaði ásamt Hubert Blanc-Francard undir lok síðustu aldar. Eitt þeirra þekktasta lag er Cassius 1999, þar sem stuðst er við brot úr lagi Donna Summer, sem náði töluverðum vinsældum. Það má heyra hér að neðan.

Þeir Zdar og Blanc-Francard unnu jafnframt við tónsmíðar annarra tónlistarmanna; eins og Phoenix, Beastie Boys, Franz Ferdinand, Pharrell Williams og franska rapparann MC Solaar. Þá starfaði Zdar jafnframt með tónlistarmönnunum Kanye West, Jay Z og sveitinni Hot Chip.

Zdar var líka annar helmingur Motorbass ásamt Etienne De Crecy sem gerðu plötuna Pansoul árið 1996. Platan er af mörgum talin ein af lykilplötum frönsku húsbylgjunnar í lok síðustu aldar ásamt Homework með Daft Punk

Zdar hlaut Grammy-verðlaunin árið 2010 fyrir hljóðblöndun sína á plötu frönsku indísveitarinnar Phoenix. Von er á fyrstu plötu Cassius í þrjú ár, Dreems, á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×