Guðríður Eldey Arnardóttir hefur verið skipuð skólameistari Menntaskólans í Kópavogi. Að fenginni umsögn skólanefndar Menntaskólans í Kópavogi hefur Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ákveðið að skipa Guðríði í embættið en skipað er til fimm ára frá og með 1. ágúst 2019. Níu umsóknir bárust um stöðuna að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Guðríður lauk B.Sc. prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands 1995 og uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda frá sama skóla árið 1997. Hún lauk diplómanámi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2002 og diplómagráðu á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands árið 2015. Guðríður hefur auk þess lokið grunn- og framhaldsnámskeiðum í samningatækni frá Harvard háskóla. Hún hefur starfað sem kennari á grunn- og framhaldsskólastigi, og einnig sem hugbúnaðarsérfræðingur, veðurfréttamaður og markaðsstjóri.
Guðríður hefur verið formaður og framkvæmdastjóri Félags framhaldsskólakennara frá árinu 2014 og er fulltrúi Íslands í ETUCE, evrópusamtökum kennarafélaga. Þá var hún bæjarfulltrúi í Kópavogi árin 2006-2014 og formaður bæjarráðs Kópavogs 2010-2012. Hún var auk þess varaformaður stjórnar og fulltrúi í kjaranefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga 2010-2014 og fulltrúi Íslands í samráðsvettvangi sveitarstjórnarfólks á vegum Evrópuráðsins.
Formaður félags framhaldsskólakennara ráðin skólameistari MK
Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
