Samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia voru brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll um hundrað níutíu og fimm þúsund í júnímánuði eða um þrjátíu og níu þúsund færri en í júní árið 2018. Fækkun milli ára nemur þannig 16,7 prósentum.
Þetta rímar við þróunina undanfarna mánuði en fækkun hefur mælst alla mánuði frá áramótum. Mest var fækkunin í maí, eða 23,6 prósent. Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir fækkunina í júní ekki jafnmikla og búist hafði verið við, og því verði áhrifin mildari.
„Þessar tölur segja að fækkun brottfararfarþega í júní miðað við júní í fyrra hafi verið tæp sautján prósent. Það er náttúrulega allmikil fækkun. Það er hins vegar minni fækkun en Isavia hafði gert ráð fyrir í nýlegri spá sinni og að því leyti mildari áhrif.“
Ýmislegt jákvætt þrátt fyrir hrun í komum Bandaríkjamanna
Mest munar um Bandaríkjamenn í tölunum en þeir voru eftir sem áður fjölmennastir í júní, eða 31 prósent brottfara. Þeim fækkaði þó um 35,1 prósent milli ára. Þjóðverjar voru í öðru sæti en brottfarir þeirra voru 17 þúsund talsins eða 6,4% fleiri en í júní árið áður. Í þriðja sæti voru brottfarir Breta, um tíu þúsund talsins og fækkaði þeim um 21,1%.Þar á eftir fylgdu síðan brottfarir Kínverja (4,9% af heild), Pólverja (4,8% af heild), Frakka (4,4% af heild), Kanadamanna (4,3% af heild), Svía (2,9% af heild), Norðmanna (2,5% af heild) og Dana (2,2% af heild). Skarphéðinn segir að ferðamenn af öðrum þjóðernum vegi upp á móti fækkuninni í röðum Bandaríkjamanna.
„Fækkunin er fyrst og fremst í fjölda Bandaríkjamanna. Af 39 þúsund farþegum sem fækkar um þá eru um 33 þúsund Bandaríkjamenn. Á móti er aukning í ýmsum af okkar heðfbundnari mörkuðum, eins og Þýskalandi og Norðurlandaþjóðunum. Þannig að það eru ýmsar ágætar vísbendingar í þessu líka.“