Skoðun

Hvert er förinni heitið ?

Þröstur Ólafsson skrifar

Fátt afhjúpar eymd íslenskra stjórnmála betur en umræðan um þriðja orkupakkann sem og milljarðar af skattpeningum sem fyrrv. sjávarútvegsráðherra sóaði fram hjá lögum. Hrokafull réttlæting hans var þessi venjulega yfirvofandi ógn frá ESB. Það er ekki nýlunda að stjórnmálamenn finni blóraböggul í meintri erlendri ásælni í auðlindir eða fullveldi. Nú er hins vegar sú mikla áhætta sem orkupakkamenn taka, með því að segja nei. Þá vekur það athygli hve mikilli ósvífni þeir beita við að nota málið í flokkspólitískum tilgangi.



Rökréttar hugsanir og ritaðar staðreyndir láta þeir eins og vind um eyru þjóta. Eins og Brexit ákvörðunin, sem var snjöll, en afar áhættusöm aðferð til að breyta um forystu í breska Íhaldsflokknum, er ljóst að annað en meintur ótti við ESB hékk á spýtunni. Styrmir sagði að það yrði að stöðva orkupakkann, því ella myndi Sjálfstæðisflokkurinn klofna. Sigmundur Davíð vill hressa upp á laskaða ímynd Klausturkappa með langri og ekki þrautalausri pólitískri hægðastíflu í ræðustól Alþingis. Óttinn við ESB bítur vel á þá sem láta þjóðernisþrungna hræðslu um að hugsa fyrir sig.

Er orkupakkinn Trójuhesturinn?

Ótti og tortryggni gagnvart því óþekkta, er ekkert séríslenskt fyrirbæri. Hvort tveggja eru fylgifiskar þeirra tilfinninga sem hrærast innra með okkur og tengjast óvissri framtíð. Óprúttnir stjórnmálamenn hafa löngum notað óttann sem vopn til að smala fjöldanum í réttina. Hitler tefldi þýskri arfleifð gegn úrkynjuðu vestrænu lýðræðisfyrirkomulagi, sem með aðstoð Gyðinga myndi ganga af þýskri tilvist, þjóðerni og menningu dauðum. Í hans augum voru Gyðingar útsendarar Bolsévikka, sem flestir óttuðust eins og pestina. Hann ól á þessum ótta og nýtti sér hann til að koma fram sem sannur verndari alls þess sem þýskt var.



Aðferðir Brexitsinna eru af keimlíkum toga. Hér heima er alið á ótta og tortryggni gegn ESB sem fullyrt er að sælist eftir hreinu orkunni og sjávarauðlindum okkar, þótt fyrir að löngu sé búið að selja obbann af orkuframleiðslugetu hreinu orkugjafanna á spottprís til erlendrar stóriðju. Stóri orkupakkinn er gerður að Trójuhestinum sem laumað er inn fyrir íslensku borgarvirkin. Þrátt fyrir lúsaleit í texta orkupakkans, finnst hvergi þar að lútandi nein vísbending. Það vita orkupakkamenn, því þeir stefna á uppsögn EES-samningsins. Þar liggi háski fullveldisins!



Endurræst fullveldi eða skurðgoð

Einfaldar hugmyndir eru aðlaðandi. Það er auðvelt að hrífast af þeim. því þær kalla á einfaldar lausnir. Í stjórnmálum hafa einföldu lausnirnar sjaldan gefist vel, því raunveruleikinn er mun flóknari. Einfalda lausnin er sögð vera að fella þriðja orkupakkann, þá losum við okkur, samkvæmt ummælum staðkunnugra í Brussel, við EES-samninginn og endurreisum um leið spjallaðan meydóm fullveldisins. Fórnarkostnaðurinn er ekki færður til bókar frekar en hjá Brexitsinnum. Ávinninginn af lifandi, hindrunarlausum aðgangi að gjöfulasta markaði heims er ógerningur að slá á tölum, þótt þess sjáist glögg merki í fjölmörgum réttarbótum og ekki síður í endurreisn íslensks þjóðarhags. Við fullveldið tengjum við upprisu þjóðarinnar á liðinni öld. En fullveldið er eins og önnur fyrirbæri samfélagssögunnar breytingum undirorpið. Það má ekki stirðna og verða að nátttrölli eða skurðgoði, því þá glatar það tímaskyninu og gagnast okkur illa, verður jafnvel hindrun. Við þurfum að styrkja og endurræsa fullveldi okkar á þann hátt að geta haft lögleg afskipti af ákvörðum annarra ríkja í málum sem snerta hagsmuni okkar, áður en þau taka lokaákvarðanir.



Þjóðþing okkar Alþingi verður áfram staðfesting á fullveldi þjóðarinnar. Við þurfum að hafa kjark til að meðhöndla fullveldi okkar sem sífellt breytileg réttindi, því heimurinn tekur stakkaskiptum. Innan Evrópu er það ESB sem reynir að samræma og koma mismunandi hagsmunum og ólíkum skoðunum margra þjóða með langa misvísandi sögu undir einn hatt, svo árekstrum verði haldið í skefjum. Þetta heitir að deila fullveldi um sameiginleg mál, en halda óskertu fullveldi um eigin málefni á þjóðþingum sinum. Ef við viljum gæta fullveldis okkar og styrkja það, verðum við að fara þessa leið, því heimurinn verður sífellt minni og þjóðirnar hver annarri háðari. Einleikur þjóðanna endar í öngstræti og opnum átökum.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×