Innlent

Dómar gegn íslenska ríkinu orðnir sex á þessu ári

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Frá Mannréttindadómstóli Evrópu.
Frá Mannréttindadómstóli Evrópu. Nordicphotos/AFP
Mannréttindadómstóll Evrópu telur íslenska ríkið hafa brotið á rétti Styrmis Þórs Bragasonar og Júlíusar Þórs Sigurðssonar til réttlátrar málsmeðferðar. Dómar MDE þessa efnis voru kveðnir upp í gær.

Styrmir Þór var dæmdur í eins árs fangelsi í Exeter málinu svokallaða en hann er fyrrverandi forstjóri MP Banka. Júlíus Þór var dæmdur í níu mánaða fang­elsi fyr­ir hlut­deild í refsi­verðu verðsam­ráði þegar hann var starfsmaður Húsasmiðjunnar.

Brot ríkisins á rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar fólust í því að Hæstiréttur byggði niðurstöðu sína á sönnunarmati lægra dómstigs án þess að vitni hafi komið fyrir Hæstarétt og gefið skýrslu.

Sú málsmeðferð sem málin lúta að er ekki lengur viðhöfð á Íslandi eftir tilkomu Landsréttar sem gegnir nú hlutverki áfrýjunardómstóls í sakamálum á Íslandi.

Þeir dómar sem fallið hafa í Strassborg á þessu ári vegna meðferðar sakamála hér á landi eru orðnir sex talsins. Tveir vegna skorts á sönnunarfærslu í Hæstarétti, einn vegna vanhæfis dómara, einn vegna ólögmætrar skipunar dómara og tveir vegna réttar til að vera ekki refsað tvívegis fyrir sama brot. Fyrsti dómur MDE gegn Íslandi í slíku máli féll árið 2017.

MDE taldi ríkið ekki brotlegt í máli lögmannanna Gests Jónssonar og Ragnars Hall og féll dómur þar að lútandi í febrúar síðastliðnum. Efri deild réttarins hefur hins vegar fallist á að taka þann dóm til endurskoðunar.




Tengdar fréttir

Hæstaréttardómari vanhæfur í Al-Thani málinu

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að Árni Kolbeinsson hæstaréttardómari hafi verið verið vanhæfur í Al-Thani málinu. Íslenska ríkið þarf að greiða Sigurði Einarssyni, Hreiðari Má Sigurðssyni, Magnúsi Guðmundssyni og Ólafi Ólafssyni tvö þúsund evrur í bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×