Erlent

Ákæra ekki lögreglumann sem olli dauða Erics Garner

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælandi með dánarorð Garner áletruð við dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna í Washington-borg í dag.
Mótmælandi með dánarorð Garner áletruð við dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna í Washington-borg í dag. Vísir/EPA
Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur ákveðið að ákæra ekki lögreglumenn sem áttu þátt í dauða Erics Garner á götum New York árið 2014. Garner var óvopnaður þegar lögreglumenn tóku hann hálstaki og héldu föstum í götunni. Hann lét af völdum astmakasts.

Dauði Garner varð kveikja að mótmælum og óeirðum í New York. Síðustu orð Garner, „Ég næ ekki andanum“, urðu að nokkurs konar slagorði samtaka eins og Svört líf skipta máli sem berjast gegn lögregluofbeldi gegn svörtum. Samtökin urðu til eftir hrinu mála á skömmum tíma þar sem hvítir lögregluþjónar urðu óvopnuðum svörtum mönnum að bana.

Garner, sem var 43 ára gamall, hafði verið stöðvaður vegna gruns um að hann seldi vindlinga ólöglega. Myndband náðist af því þar sem hvítur lögreglumaður tók hann því sem virtist ólöglegu kyrkingartaki aftan frá á meðan aðrir lögreglumenn þrýstu brjóstinu á honum í götuna. Þrýstingurinn á háls og brjóst Garner er talinn hafa orsakað astmakastið sem varð honum að bana.

New York Times greinir frá því að dómsmálaráðuneytið hafi nú ákveðið að sækja lögreglumanninn sem tók Garner hálstaki ekki til saka eftir um árslanga rannsókn. Lögreglumaðurinn hefur starfað á skrifstofu frá því að Garner lést. Lögreglustjóri New York á enn eftir að taka afstöðu til þess hvort hann verði rekinn.

Enginn lögreglumannanna sem áttu þátt í dauða Garner hafa verið ákærðir eða sætt refsingu af hálfu lögreglunnar. Ákærudómstóll í New York ákvað að ákæra lögreglumanninn ekki í desember árið 2014. Lögreglumaðurinn hafði borið því að hann hefði ekki tekið Garner kyrkingartaki. Hann hafi óttast að vera ýtt í gegnum verslunarglugga í átökunum.


Tengdar fréttir

Rannsókn hafin á dauða Eric Garner í New York

Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur hafið rannsókn á dauða Eric Garner, svarts manns sem hvítur lögreglumaður í New York tók hálstaki þannig að Garner lést. Eric Holder dómsmálaráðherra tilkynnti þetta í gærkvöldi eftir að kviðdómur í New York ákvað að ákæra lögreglumanninn ekki.

Enn mótmælt í Bandaríkjunum

Enn kom til mótmæla í bandarískjum borgum í nótt vegna andláts manns sem tekinn var hálstaki af lögreglumanni í New York.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×