Erlent

May og fleiri Evrópuleiðtogar fordæma rasísk ummæli Bandaríkjaforseta

Kjartan Kjartansson skrifar
May (t.h.) og Trump (t.v.) á G20-fundinum í Japan fyrr í sumar.
May (t.h.) og Trump (t.v.) á G20-fundinum í Japan fyrr í sumar. Vísir/EPA
Ummæli Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að fjórar bandarískar þingkonur ættu að fara frá Bandaríkjunum eru algerlega óásættanleg að mati Theresu May, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands. Fleiri evrópskir stjórnmálamenn hafa fordæmt ummælin sem þykja rasísk.

Trump tísti um ónefndar frjálslyndar þingkonur Demókrataflokksins um helgina sem hann sagði að ættu að fara aftur til landanna sem þær kæmu frá. Ljóst er að hann átti við fjórar nýjar þingkonur demókratar, þær Alexandriu Ocasio-Cortez, Rashidu Tlaib, Ilhan Omar og Ayönnu Pressley. Þrjár þeirra eru fæddar í Bandaríkjunum ein Omar fluttist þangað sem barn frá Sómalíu. Allar eru þær dökkar á hörund.

„Ef hverju fara þær ekki aftur og hjálpa til við að laga algerlega brotnu og glæpaplöguðu staðina sem þær komu frá. Síðan koma þær til baka og sýna okkur hvernig þetta er gert,“ tísti Trump sem gramdist að þingkonurnar gagnrýndu ríkisstjórn hans.

Sjá einnig:Trump segir bandarískum þingkonum að fara aftur „til síns heima“

Fulltrúar Demókrataflokksins hafa fordæmt ummælin og kallað þau rasísk. Repúblikanar hafa aftur á móti lítt tjáð sig um ummælin. Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður flokksins og vinur Trump, sagði á Fox-sjónvarpsstöðinni í morgun að þingkonurnar væru óamerískir kommúnistar sem hötuðu Bandaríkin og gyðinga.

May, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, er á meðal evrópskra ráðamanna sem hafa gagnrýnt ummæli forsetans í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

„Skoðun forsætisráðherrans er að orðbragðið sem var notað til að vísa til þessara kvenna hafi verið algerlega óásættanlegt,“ sagði talsmaður May í dag.

Nicola Sturgeon, oddviti skosku heimastjórnarinnar, tók í sama streng á Twitter. Það væri ekki í lagi að Bandaríkjaforseti segði kjörnum fulltrúum að „fara aftur heim“.

„Diplómatísk kurteisi ætti ekki að stöðva okkur í að segja það hátt og snjallt,“ tísti Sturgeon.

„Rasismi Trump er ógeðfelldur. Hver sé evrópski stjórnmálamaður sem fordæmir þetta ekki þarf að svara spurningum og ætti að skammast sín,“ sagði Guy Verhofstadt, belgíski Evrópuþingmaðurinn.

Trump hélt árásum sínum á þingkonurnar áfram á Twitter í morgun. Þar krafði hann þær um afsökunarbeiðni og kallaði þær rasista.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×