Körfubolti

Jakob: Var búinn að útiloka að geta spilað með gömlu félögunum

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jakob Örn Sigurðarson segist hafa verið búinn að útiloka það að hann myndi spila með sínum gömlu félögum í KR á nýjan leik en sú verður þó raunin í vetur þegar hann mætir með Vesturbæingum í Domino's deild karla.

Jakob hefur verið atvinnumaður í Svíþjóð síðustu tíu ár, nú síðast fyrir Borås en einnig með Sundsvall Dragons.

Nú hefur Jakob hins vegar flutt aftur heim og tekur slaginn með KR. Íslandsmeistararnir eru með breiðan hóp þar sem er að finna mikið af reyndum KR-ingum.

„Við höfum þekkst og spilað saman síðan við vorum bara guttar, að hafa möguleikann á að gera það aftur og ná allavega einu tímabili er alveg yndislegt,“ sagði Jakob í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

„Það er eitthvað sem ég var bara búinn að útiloka þannig séð. Ég var ekkert viss um að ég sjálfur myndi spila aftur í KR, svo þetta er bara geggjað.“

Helsta ástæða þess að Jakob snýr aftur til Íslands á þessum tímapunkti er fjölskyldan.

„Við vorum búin að vera það lengi úti að strákarnir okkar hafa aldrei búið á Íslandi. Þeir voru orðnir mjög sænskir í öllu og því lengur sem við hefðum beðið því erfiðara hefði það orðið.“

Jakob viðurkenndi að hann hefði skoðað önnur lið þegar hann var búinn að ákveða að koma heim en sagði: „Ég er KR-ingur, hef alltaf verið og mun alltaf vera. Að geta komið hingað, klárað ferilinn hér og spilað með Matta bróður er bara draumur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×