Utanríkisráðherra Bretlands, Jeremy Hunt, segir mögulegt að Bretar leyfi íranska olíuskipinu, sem breski sjóherinn tók í hald nálægt Gíbraltar, verði leyft að sigla aftur. Skilyrði fyrir því er að olían sem skipið flytur sé ekki á leið til Sýrlands.
Skipið, sem ber heitið Grace 1, var tekið í umsjá Breta fyrr í mánuðinum vegna gruns um brot á viðskiptabanni Evrópusambandsins.
Íranar hafa lýst atvikinu sem „sjóráni,“ og írönsk skip reyndu í kjölfarið að hindra för bresks olíuskips, að því er fram kemur í umfjöllun BBC um málið.
Utanríkisráðherrann Hunt segist nú hafa átt „uppbyggilegt símtal“ við utanríkisráðherra Írans, Mohammad Javad Zarif.
„Ég fullvissaði hann um að áhyggjuefni okkar væri áfangastaður olíunnar, en ekki upprunaland hennar,“ skrifaði Hunt á Twitter og bætti við að Bretar myndu láta skipið af hendi, fengju þeir tryggingu fyrir því að það væri ekki á leið til Sýrlands.
Hunt sagði einnig Zarif væri allur af vilja gerður til þess að leysa málið og að hann vildi ekki sjá málið stigmagnast frekar.
