Smitsjúkdómavarnir Evrópu, eða EDC, hefur gefið út skýrslu þar sem fram kemur að sárasóttartilfelli í Evrópu eru hlutfallslega flest hér á landi. Aldrei hafa verið fleiri tilfelli í Evrópu og er áhættusöm hegðun í kynlífi talin ein helsta ástæða þess.
Á Íslandi eru sárasóttartilfelli 15,4 á hverja hundrað þúsund íbúa landsins. Þessi tölfræði setur Ísland á toppinn þegar kemur að sárasótt. En næst á eftir Íslandi koma Bretland og Malta. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að frá árinu 2010 hafi tilfellum hér á landi fjölgað um alls 876 prósent. Alls greindust 33 þúsund tilfelli í allri Evrópu árið 2017 en áratug fyrr, voru þau 19 þúsund. Þannig hefur tilfellum fjölgað um 14 þúsund á áratug.
Í skýrslunni segir að áhættusöm hegðun í kynlífi fólks sé helsta ástæða þess að fjöldi tilfella hefur næstum tvöfaldast. Fólk hafi samfarir við fleiri einstaklinga og notist síður við smokka, sem er almennt talin eina getnaðarvörnin sem kemur einnig í veg fyrir að kynsjúkdómar berist á milli fólks.
Aðrar ástæður sem taldar eru til í skýrslunni eru notkun fólks á stefnumótaforritum þar sem það leitar eftir skyndikynnum eða notkun ofskynjunarlyfja í kynlíf sem valda því að öll varkárni fýkur út í veður og vind, þannig að fólk gleymi að huga að vörnum gegn sjúkdómum.
Sárasótt er smitsjúkdómur af völdum bakteríu sem nefnist Treponema pallidum og er talin til kynsjúkdóma. Helsta smitleið sárasóttar er í gegn um slímhúð kynfæra við samfarir en getur einnig smitast í gegn um aðra slímhúð.
Sjúkdómurinn er talinn auðlæknaður en sé ekkert aðhafst getur hann „lagst í dvala“ sem varað getur í á annan tug ára. Þá getur sjúkdómurinn valdið tauga- og hjartasjúkdómum, og í verstu tilfellum dregið fólk til dauða.
Skýrslu EDC má nálgast hér.
Innlent