Erlent

Stórauka undirbúning fyrir útgöngu án samnings

Kjartan Kjartansson skrifar
Raab var Brexit-ráðherra í ríkisstjórn Theresu May en er nú utanríkisráðherra Boris Johnson.
Raab var Brexit-ráðherra í ríkisstjórn Theresu May en er nú utanríkisráðherra Boris Johnson. Vísir/EPA
Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, segir að ríkisstjórn Boris Johnson stórefli nú undirbúning fyrir möguleikann á útgöngu úr Evrópusambandinu án samnings í lok október. Hann telur mun auðveldara að ná hagstæðum samningum við sambandið eftir slíka útgöngu.

Forysta Evrópusambandsins hefur gefið það út að hún sé ekki til viðræðu um verulegar breytingar á útgöngusamningi sem hún gerði við fyrri ríkisstjórn Theresu May. Johnson og aðrir harðir Brexit-sinnar vilja að ákvæði um svonefnda írska baktryggingu verði fellt úr samningnum.

Raab segir að Johnson forsætisráðherra hafi skipað ríkisstjórninni að „forþjöppudrífa“ undirbúning fyrir útgöngu án samnings, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Segir hann baktrygginguna ólýðræðislega og að afnema verði ákvæðið. Johnson muni ekki taka upp viðræður við ESB nema sambandið fallist á að fella niður baktrygginguna.

„Þó að það verði áhætta fyrir alla aðila af þessu [útgöngu án samnings], held ég að möguleikinn á að koma til baka og tryggja góðan samning fyrir Bretland verði auðveldari eftir að við göngum út, ef það verður tilfellið, og ástæðan er sú að við gerum það þá sem sjálfstætt þriðja ríki og verðum þá minna undir kröfur og einhliða tilskipanir Evrópusambandsins seld en við erum nú,“ sagði Raab í viðtali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×