Kaupum Michele Ballarin og félags hennar, Oasis Aviation Group, á flugrekstrartengdum eignum úr þrotabúi WOW air hefur verið rift samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Ástæðan mun vera sú að síendurtekið hafi dregist að inna af hendi fyrstu greiðslu samkvæmt kaupsamningi sem gerður var milli þrotabúsins og fyrrnefndra kaupenda.
Heimildir Fréttastofu Stöðvar 2 herma jafnramt að hún sé ekki búin að greiða krónu fyrir eignirnar þó hún hafi komið fram í Morgunblaðinu og sagt frá kaupunum og fyrirætlunum sínum um að endurreisa WOW Air og hún hefði tryggt 10,5 milljarða í reksturinn.
Í Morgunblaðinu kemur jafnframt fram að samkvæmt heimildum þess hafi heildarvirði viðskiptanna verið hundrað og áttatíu milljónir króna sem hafi samkvæmt samningi átt að greiðast í þremur áföngum.

Þá vekur greiðslufrestur Ballarin furðu og að hún hefði fengið að ganga svona langt án þess að vera hún væri búin að greiða krónu fyrir.
Annar sagði mjög sérstakt að hægt væri að gera tilboð í eignir og svo væri búið að básúna út um allt að búið væri að selja eignirnar þegar enginn fótur virtist vera fyrir fregnunum. Tíðindin hefðu mögulega haft þau áhrif að aðrir kaupendur hefðu hætt við tilboð eða haldið að sér höndum sem gæti haft áhrif á þrotabúið og greiðslur frá því.
Sveinn Ingi Sveinsson sem áður vann í hagdeild hjá WOW Air segir að fréttir um að kaupunum hefði verið rift hefði engin áhrif á fyrirætlanir fyrirtækisins WAB air um nýtt flugfélag en WAB er búið að sækja um flugrekstrarleyfi hjá Samgöngustofu. Allt sé samkvæmt áætlun og frekari fregna sé að vænta síðar í sumar.
Samkvæmt heimildum fréttastofu er írska félagið Avianta Capital á bak við fjárfestingar WAB air en skiptastjórar þrotabús WOW Air höfnuðu tilboði WAB í eignir búsins fyrr í sumar.