Körfubolti

Hlynur svaraði kallinu og hætti við að hætta

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hlynur Bæringsson mun klæðast hvítu treyjunni á ný
Hlynur Bæringsson mun klæðast hvítu treyjunni á ný vísir/daníel
Hlynur Bæringsson mun klæða sig í íslensku landsliðstreyjuna á ný eftir að hafa ákveðið að hætta með landsliðinu í vor.

Hlynur mun taka þátt í leikjum Íslands í forkeppni undankeppni EM 2021 í körfubolta nú í ágúst. Forföll voru í landsliðshópnum sem urðu til þess að landsliðsþjálfararnir og körfuknattleikssambandið leitaði til Hlyns og ákvað hann að svara kallinu.

Hlynur á að baki 125 A-landsleiki og er því reynslumesti leikmaður hópsins.

Ísland spilar heima og heiman við Sviss og Portúgal og mun efsta lið riðilsins fá sæti í undankeppni EM 2021 sem hefst í vetur. Fyrsti leikur Íslands er 7. ágúst gegn Portúgal ytra.

Einn nýliði er í landsliðshópnum, Frank Aron Booker. Hann er atvinnumaður í Frakklandi og hefur verið í bandaríska háskólaboltanum síðustu ár. Faðir hans er Frank Booker, fyrrum leikmaður Vals, ÍR og Grindavíkur.

Kristófer Acox og Kári Jónsson voru valdir í hópinn en eru meiddir. Sigurður Gunnar Þorsteinsson gat ekki gefið kost á sér því hann er að fara til móts við sitt nýja félagslið og þá er Haukur Helgi Pálsson með ákvæði í samningi sínum við sitt nýja félag sem gerir það að verkum að hann gat ekki gefið kost á sér.

Æfingahópur landsliðsins er skipaður 15 leikmönnum:

Collin Pryor · Stjarnan (4)

Frank Aron Booker · ALM Évreux, Frakkland (Nýliði)

Gunnar Ólafsson · Keflavík (14)

Elvar Már Friðriksson · Njarðvík (42)

Hlynur Bæringsson · Stjarnan (125)

Hördur Axel Vilhjálmsson · Keflavík (78)

Jón Axel Guðmundsson · Davidson, USA (7)

Kristinn Pálsson · Njarðvík (13)

Hjálmar Stefánsson · Haukar (12)

Martin Hermannsson · Alba Berlin, Þýskaland (65)

Ólafur Ólafsson · Grindavík (32)

Pavel Ermolinskij · KR (69)

Ragnar Ágúst Nathanaelsson · Valur (44)

Tryggvi Snær Hlinason · Zaragoza, Spánn (33)

Ægir Þór Steinarsson · Regatas Corrientes, Argentína (57)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×