Innlent

Gul viðvörun í gildi vegna hvassviðris

Birgir Olgeirsson skrifar
Spákort Veðurstofu Íslands fyrir klukkan tvö í dag.
Spákort Veðurstofu Íslands fyrir klukkan tvö í dag. Vedur.is
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland og Suðausturland vegna austan hvassviðris fram yfir hádegi með vindhviðum upp í 30 til 35 metra á sekúndu. Eru ökumenn með ferðavagna og á húsbílum sérstaklega beðnir um að sýna aðgát undir Eyjafjöllum og í Öræfum. Búist er við að það lægi smám saman í kvöld. 

Að öðru leyti má búast við einmuna veðurblíða víða um land í dag. Gerir Veðurstofa Íslands ráð fyrir heiðskírum himni víðast hvar um land og hita allt að 23 stigum þar sem best lætur. Þokubakkar gætu þó gert vart við sig á austur strönd landsins og á Ströndum og má búast við stöku skúrum syðst í dag. 

Horfur næstu daga:

Á fimmtudag:

Austlæg átt 3-8 og víða léttskýjað, en skýjað og dálítil súld við austurströndina. Hiti 14 til 22 stig, en svalara austast.

Á föstudag og laugardag:

Fremur hæg austlæg eða breytileg átt og bjart með köflum, en þokubakkar við norður- og austurströndina. Hiti víða 14 til 20 stig að deginum, en svalara í þokunni.

Á sunnudag og mánudag (frídagur verslunarmanna):

Austlæg átt, 3-10 m/s, hvassast við suðurströndina. Skýjað með köflum og líkur á stöku síðdegisskúrum. Hiti 10 til 18 stig.

Á þriðjudag:

Fremur hæg norðaustlæg átt, skýjað með köflum og stöku síðdegisskúrir suðvestantil. Hiti 10 til 17 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×