Erlent

Maður sem ýtti mæðginum fyrir lest var eftirlýstur

Kjartan Kjartansson skrifar
Blóm hafa verið skilin eftir á brautarpallinum þar sem maður hrinti mæðginum út á teinana. Átta ára gamall drengur varð fyrir lest og dó.
Blóm hafa verið skilin eftir á brautarpallinum þar sem maður hrinti mæðginum út á teinana. Átta ára gamall drengur varð fyrir lest og dó. Vísir/EPA
Þýska lögreglan segir að fertugur karlmaður frá Erítreu sem hrinti mæðginum fyrir lest í Frankfurt í gær hafi verið eftirlýstur í Sviss þar sem hann hafði fengið hæli. Átta ára gamall drengur lést þegar hann varð fyrir lestinni.

Atvikið hefur valdið óhug í Þýskalandi. Lögreglan segir að maðurinn hafi fyrst hrint móður drengsins út á teinana en hún náði að koma sér undan. Þá hafi hann hrint átta ára gömlum sinni hennar í veg fyrir lest með þeim afleiðingum að drengurinn lét lífið. Maðurinn reyndi svo að hrinda 78 ára gamalli konu sem datt á brautarpallinum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Sami maður er sagður hafa ógnað nágrannakonu sinni í Sviss með hnífi á fimmtudag. Hann hafi hótað henni lífláti áður en hann flúði. Lögreglan þar í landi lýsti eftir honum í kjölfarið. Maðurinn var handtekinn eftir ódæðin í Frankfurt í gær.

Saksóknari í Þýskalandi segir að maðurinn verði ákærður fyrir morð og tvær tilraunir til manndráps. Mögulegt sé að maðurinn sé andlega veikur en rannsókn er ekki lokið. Ekkert bendi til þess að hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða vímuefna.

Maðurinn, sem er þriggja barna faðir, gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Hann kom til Sviss árið 2006 og fékk hæli þar tveimur árum síðar. Hælisyfirvöld þar töldu hann hafa aðlagast vel og talinn hafa verið til fyrirmyndar.

Yfirvöld telja engin tengsl á milli harmleiksins í gær og atviks í nágrenni Frankfurtar í síðustu viku þar sem þýskur karlmaður réðst á Erítreumann og svipti sig svo lífi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×