Innlent

Snæfríður Jónsdóttir er nýr formaður Ungra athafnakvenna

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Efri röð frá vinstri: Amna Hasecic, Björgheiður Margrét Helgadóttir og Vala Rún Magnúsdóttir. Neðri röð frá vinstri: Auður Albertsdóttir, nýr formaður Snæfríður Jónsdóttir og Kolfinna Tómasdóttir.
Efri röð frá vinstri: Amna Hasecic, Björgheiður Margrét Helgadóttir og Vala Rún Magnúsdóttir. Neðri röð frá vinstri: Auður Albertsdóttir, nýr formaður Snæfríður Jónsdóttir og Kolfinna Tómasdóttir. Mynd/Vaka Njálsdóttir
Ný stjórn Ungra athafnakvenna, UAK, hefur tekið til starfa en hún var skipuð á aðalfundi félagsins 28. maí síðastliðinn. Frá fyrra starfsári sitja áfram þær Auður Albertsdóttir, Kolfinna Tómasdóttir og Snæfríður Jónsdóttir sem er jafnframt nýr formaður félagsins. Amna Hasecic, Björgheiður Margrét Helgadóttir og Vala Rún Magnúsdóttir voru kosnar nýjar inn í stjórn á aðalfundinum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá UAK.

Félagið Ungar athafnakonur var stofnað árið 2014 og fagnar því fimm ára afmæli í haust. Félagskonur voru rúmlega 300 talsins á síðasta starfsári.

„UAK vill stuðla að samfélagi þar sem konur og karlar standa jafnfætis og bjóðast sömu tækifæri. Markmið félagsins er að styrkja stöðu og framtíð ungra kvenna sem stjórnendur og þátttakendur í atvinnulífinu með fræðslu og tengslamyndun,“ segir í tilkynningu.

Opnunarviðburður nýs starfsárs UAK fer fram 4. september næstkomandi. Starfsárið nær svo hámarki á ráðstefnunni UAK-deginum sem fram fer í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×